Margir bíða eftir meðferð á Vogi

„Í byrjun hvers árs kemur alltaf talsverður hópur fólks til okkar og leitar eftir þjónustu. Ég vona að þær takmarkanir sem við höfum nú þurft að setja í starfseminni lengi ekki biðlista úr hófi, heldur jafnist þetta út á nokkrum vikum,“ segir Einar Hermansson, formaður SÁÁ. Vegna sóttvarna eru nú á hverjum tíma 40 sjúklingar í stað 60 í áfengis- og vímuefnameðferð á Vogi. Sjúkrahúsinu er jafnframt skipt upp í fjögur aðskilin hóf, til að draga úr hættu á smitum. Á þrettándanum kom upp kórónuveirusmit á Vogi, en tekið var á málinu strax með aðgerðum sem dugðu til.

Biðin eftir hjálpinni er alltaf sársaukafull

Um 600 manns bíða þess nú að komast í meðferð á Vogi, en innlögnum er forgangsraðað eftir því hve bráður vandi viðkomandi sjúklings er. Að jafnaði eru fimm til sex sjúklingar teknir inn og útskrifaðir á degi hverjum. „Bið eftir því að fá nauðsynlega hjálp í erfiðum veikindum með allri þeirra þjáningu sem slíku fylgir er í eðli sínu sársaukafull. Ég vonast því til að starfsemin hér komist sem allra fyrst á eðlilegt ról,“ segir Einar.

Að jafnaði leggjast um 2.200 manns inn á Vog, en sóttverjandi aðgerðir í fyrra réðu því að í fyrra voru innlagnirnar 1.862. Kórónuveirufaraldurinn hefur annars leitt í ljós vanda og veikindi margra varðandi áfengis- og vímuefnanotkun. Neysla margra er sömuleiðis dulin, til dæmis meðal kvenna sem eru komnar á eða yfir miðjan aldur.

„Fólk virðist í talsverðum mæli vera heima að þjóra, margir þá til dæmis í einveru sem kemur til vegna veiruvarna. Ákveða svo að lokum að leita til okkar eftir aðstoð, um þetta höfum við séð mörg dæmi á allra síðustu misserum,“ segir formaður SÁÁ.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »