Tími til að líta á Covid-19 sem inflúensu?

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins.
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins. mbl.is/​Hari

Í liðinni viku lýstu forsætis- og heilbrigðisráðherrar Spánar því yfir að nú væri kominn sá tími að rétt væri að nálgast heimsfaraldur Covid-19 sem hverja aðra inflúensu. Ný nálgun væri nauðsynleg þar sem eiginlegum heimsfaraldri væri lokið í ljósi þess að hið svokallaða ómíkron-afbrigði veirunnar væri mun mildara en þau fyrri.

Þannig hófst ræða Bergþórs Ólasonar, þingmanns Miðflokksins, á Alþingi þar sem hann spurði heilbrigðisráðherra út í fréttir frá Spáni og sömuleiðis efasemdir Ragnars Freys Ingvarssonar læknis og fyrrverandi yfirmanns Covid-göngudeildar, sem sagði Íslendinga skima allt of marga við veirunni.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sagðist fagna ólíkum sjónarmiðum í umræðuna en sagði PCR-prófin, þar sem skimað er fyrir veirunni, hafa reynst mikilvægur liður í sóttvarnaráðstöfunum. 

Þegar við berum okkur saman við aðrar þjóðir verðum við að taka inn í myndina að við erum á ólíkum stað í bylgjunni, ef við tökum til að mynda Spán. Við erum mjög dugleg, í samráði við sóttvarnayfirvöld, sóttvarnalækni, að skoða hvað er að gerast annars staðar,“ sagði Willum.

Metið út frá tilefni og nauðsyn

Bergþór spurði ráðherra enn fremur hvaða rannsókn hann hefði innt af hendi þegar komi að íþyngjandi ákvörðun um réttindi og skyldur fólks í nafni sóttvarna.

„Til að kjarna það hver staðan er þá er það þannig, á tímabilinu 5.–12. janúar þegar við kynnum þessar nýjustu tillögur og reglur, að það koma þrjú minnisblöð frá sóttvarnalækni sem taka breytingum eftir því sem líður á og við verðum ávallt að meta þetta. Þar voru þrjár tillögur; óbreytt, herða takmarkanir eða jafnvel í takmarkaðan tíma að fara í lokanir. Þá metum við þetta út frá tilefni og nauðsyn, meðalhófi og jafnræði,“ útskýrði Willum og hélt áfram:

„Það er alltaf það sem okkur ber skylda til að gera. En frumskyldan verður alltaf sú sama, og við megum ekki láta reglurnar verða yfirsterkari markmiðunum að því leyti, þ.e. að verja líf og heilsu og sjá til þess að heilbrigðiskerfið sé hvern dag í stakk búið til að takast á við ástandið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert