Andlát: Ragnheiður Jónsdóttir

Ragnheiður Jónsdóttir.
Ragnheiður Jónsdóttir.

(Ólína) Ragnheiður Jónsdóttir húsmóðir lést á Landspítalanum í Fossvogi sunnudaginn 16. janúar, 92 ára að aldri.

Ólína Ragnheiður fæddist á Sauðárkróki 7. október 1929 og var næstyngst tíu barna Jóns Þ. Björnssonar frá Veðramóti í Gönguskörðum, skólastjóra, oddvita og fyrsta heiðursborgara Sauðárkróks, og konu hans Geirlaugar Jóhannesdóttur, sem lést þegar Ragnheiður var tveggja ára. Ragnheiður er síðust barna „Jóns kennara“ sem fellur frá en hin voru Stefán arkitekt, Jóhanna Margrét saumakona, Þorbjörg, skólastjóri Hjúkrunarskóla Íslands, Sigurgeir gjaldkeri, Björn, læknir í Kanada, Ragnheiður Lilja, húsmóðir í Bandaríkjunum, Gyða myndvefari, Jóhannes Geir listmálari og Geirlaugur bókbindari. Ragnheiður gekk í Húsmæðraskóla Reykjavíkur og helgaði líf sitt húsmóðurhlutverkinu; mikilvirkur uppalandi, móðir og leiðtogi yngri kynslóða ættarinnar.

Ung stundaði hún verslunarstörf á Sauðárkróki og síðar á lífsleiðinni um árabil í Verðlistanum. Á níræðisafmæli Ragnheiðar kom út Móðurleg matreiðslubók eftir hana og son hennar.

Ragnheiður giftist Magnúsi Óskarssyni borgarlögmanni, f. 10. júní 1930, en hann lést 1999. Hún hélt eigið heimili fram undir andlátið. Börn Magnúsar og Ragnheiðar eru Þorbjörn stýrimaður, Óskar, rithöfundur og bóndi, Hildur hjúkrunarfræðingur og Haukur viðskiptafræðingur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert