Eigandi Nýju vínbúðarinnar ákærður

Sverrir Einar Eiríksson, athafnamaður og eigandi Nýju vínbúðarinnar.
Sverrir Einar Eiríksson, athafnamaður og eigandi Nýju vínbúðarinnar. Ljósmynd/Aðsend

Sverrir Einar Eiríksson, athafnamaður og eigandi Nýju vínbúðarinnar, hefur verið ákærður af héraðssaksóknara fyrir skattsvik og peningaþvætti í rekstri þriggja einkahlutafélaga sem hafa öll orðið gjaldþrota og verið afskráð.

Félögin þrjú sem um ræðir eru BHG, sem stofnað var árið 2016, Sogið veitingar og Jupiter gisting, bæði stofnuð árið 2018. 

Sveik tugi milljóna króna undan skatti

Sem framkvæmdastjóri og varastjórnarmaður BFG efh. er Sverrir ákærður fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum og peningaþvætti með því að hafa hvorki skilað virðisaukaskattsskýrslum félagsins á lögmæltum tíma né skilað virðisaukanum sjálfum, staðgreiðslu opinberra gjalda og staðgreiðsluskilagreinum vegna þeirra. Nam samanlögð upphæð um fjórtán milljónum króna en þar að auki er Sverrir ákærður fyrir peningaþvætti með því að hafa hafa notað ávinning félagsins í þágu rekstrar þess.

Um tíma rak Sverrir veitingastaðinn Þrastalund í Grímsnesi í gegnum félagið Sogið veitingar ehf. Sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Sogsins veitinga ehf. er hann ákærður fyrir meiriháttar brot á skattalögum og peningaþvætti með því að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda og staðgreiðsluskilagreinum félagsins. Nam upphæðin 9,3 milljónum króna en hann er einnig ákærður fyrir peningaþvætti í þessum lið.

Loks sætir hann ákæru fyrir að hafa sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Jupiter gisting ehf. ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda og staðgreiðsluskilagreinum árin 2018 og 2019. Nam heildarupphæðin rúmum 8,7 milljónum króna. Þá er Sverrir einnig ákærður fyrir peningaþvætti í þessum lið.

Samtals er Sverrir því ákærður fyrir 32 milljóna skattalagabrot.

Með skrautlegan viðskiptaferil að baki

Sverrir hefur komið víða við í viðskiptalífinu en auk þess að reka gistiheimili, starfsmannaleigu og veitingastað hefur hann keypt gull af Íslendingum, stundað viðskipti með demanta, opnað smálánafyrirtæki og boðið upp á 95% fasteignalán. Hann opnaði svo bresku vefverslunina Nýju vínbúðina síðastliðið sumar þar sem hann selur Íslendingum bæði vín og Covid-19-sjálfspróf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert