Fór að æfa eftir að hafa séð Bubba beran að ofan

Tóm­as A. Tóm­as­son, eða Tommi á Búll­unni, þingmaður og veit­ingamaður til margra ára, seg­ir frá því hvers vegna hann tók að stunda líkamsrækt reglulega í Dagmálum.

Tóm­as er gest­ur Karítas­ar Rík­h­arðsdótt­ur í Dag­mál­um þar sem farið er um víðan völl. Rekst­ur­inn í gegn­um árin, fram­boðið og stjórn­mál­in og margt fleira er rætt í þætt­in­um. 

Tóm­as seg­ir að hann hafi verið eins og „illa vafin rúllupylsa“. Hann fór á rokkhátíð sem haldin var í Sambíóunum árið 1981, þar sem allar helstu rokkhljómsveitir Íslands komu fram, þeirra á meðal Egó þar sem Bubbi Morthens var söngvari.  

Lá við að hann færi að gráta fyrir framan spegilinn 

„Bubbi var í rosalegu formi. Hann fer úr að ofan og hleypur um senuna ber að ofan, alveg hreint að hamast og syngja, söng góð lög og allt það. Og ég var svo heillaður,“ segir Tommi frá. 

„Ég fór heim og ég fór úr að ofan og ég stóð fyrir framan spegilinn og það lá við að ég færi að gráta, hvað ég var í slæmu formi.“

Hann segir að hafa séð Bubba beran að ofan þetta kvöld hafi þannig orðið til þess að hann hafi farið að æfa sem hann hafi gert reglulega allar götur síðan. 

Í markaðsefni Flokks fólksins fyrir alþingiskosningarnar í haust mátti meðal annars sjá myndir af Tomma berum að ofan en hann er í hörkuformi, 72 ára.

Viðtalið við Tóm­as má sjá í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert