Framkvæmdastjórn SÁÁ „slegin“ yfir stöðunni

Einar Hermannsson, formaður SÁÁ.
Einar Hermannsson, formaður SÁÁ.

„Framkvæmdastjórn SÁÁ er slegin yfir þeirri stöðu sem upp er komin. Starfsfólk samtakanna vinnur af heilindum og fagmennsku og leggur sig fram á hverjum degi við að sinna skjólstæðingum, sem hafa leitað til þeirra eftir læknishjálp og aðstoð vegna fíknar,“ segir í yfirlýsingu frá SÁÁ. 

Tilefni hennar er það að Sjúkra­trygg­ing­ar Íslands (SÍ) krefja SÁÁ um tæp­ar 175 millj­ón­ir króna vegna til­hæfu­lausra reikn­inga og vanefnda á þjón­ustu og þjón­ustu­magni. 

„Í þeim krefjandi aðstæðum sem heimsfaraldri fylgdi, með tilheyrandi samkomutakmörkunum, var leitað allra leiða til að halda uppi lögbundinni og nauðsynlegri þjónustu við þennan viðkvæma hóp. Það eru því mikil vonbrigði að eftirlitsdeild SÍ skuli hafa komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið staðið rétt að málum og kært SÁÁ til embættis héraðssaksóknara,“ segir í yfirlýsingunni, sem Einar Hermannsson, formaður SÁÁ, sendi til fjölmiðla.

Hafa kallað eftir samráðsvettvangi

Þá segir í yfirlýsingunni að framkvæmdastjórn SÁÁ harmi þann farveg sem málið sé komið í en ekki hafi verið tekið tillit til þeirra skýringa í bréfi Ara Matthíassonar, deildarstjóra eftirlitsdeildar SÍ, sem dagsett er 29. desember 2021.

„Framkvæmdastjórn SÁÁ hefur lengi kallað eftir samráðsvettvangi SÁÁ og SÍ, eins og skýrt er kveðið á um í samningi. Hún hefur einnig kallað eftir leiðbeiningum eða lausn svo hægt sé að veita lögbundna og nauðsynlega þjónustu við þær krefjandi aðstæður sem samkomutakmarkanir eru. Því miður hefur ekki verið brugðist við þeim beiðnum. Ákall um samráðsvettvang og leiðbeiningar er ítrekað, svo hægt verði að koma í veg fyrir að staða eins og þessi komi upp í framtíðinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert