Kalla eftir því að fleiri valkostir séu skoðaðir

Síðasta reglugerð um sóttvarnaaðgerðir var kynnt á föstudag.
Síðasta reglugerð um sóttvarnaaðgerðir var kynnt á föstudag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Enn bólar ekkert á framtíðarsýn ríkisstjórnar er varðar samkomutakmarkanir í kórónuveirufaraldrinum. Atvinnurekendur kvarta sáran yfir skort á fyrirsjáanleika og hörðum takmörkunum og hefur Félag atvinnurekenda nú sent heilbrigðisráðherra erindi sem inniheldur sex spurningar um þá valkosti sem hafa verið til skoðunar áður en sóttvarnaaðgerðir voru hertar.

Í samtali við mbl.is í morgun sagði Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra yfirvöld enn vera að afla sér upplýsinga svo hægt sé að ræða um stöðu samfélagsins til lengri tíma í samhengi við faraldurinn. Hann segir getu heilbrigðiskerfisins til að takast á við alvarleg veikindi sjúklinga vera veigamikinn þátt í hvernig yfirvöld sjái fyrir sér stöðuna en Landspítali er nú rekinn á neyðarstigi.

„Auðvitað hefur þetta snúist um það núna að við ráðum við stöðuna, heilbrigðisþjónustan og spítalinn. Ég held að það sé bæði að þakka samstöðunni þar sem maður hleypur undir manns hönd og svo hefur hugvit og útsjónasemi Covid-göngudeildar augljóslega áhrif hér og góð bólusetningarstaða,“ segir Willum inntur eftir viðbrögðum við því að verstu spár spítalans um innlagnarfjölda hafa ekki gengið eftir.

Tíminn mun leiða í ljós hvort takmarkanirnar skili árangri

Þrátt fyrir umfangsmiklar samkomutakmarkanir hefur fjöldi smita sem greinast á dag ekki lækkað. Hafa ríflega þúsund innanlandssmit verið að greinast á dag upp á síðkastið.

Í nýjustu reglugerð um sóttvarnir sem tók gildi á laugardag er kveðið á um 10 manna samkomutakmörkun, skemmtistöðum og spilasölum gert að loka og engar undanþágur veittar fyrir stærri viðburði með hraðprófum. Aftur á móti hefur skólahald ekki verið tekið af dagskrá þrátt fyrir að stór hluti þeirra sem smitast séu börn á grunnskólaaldri. 

Hafa einhverjir farið gagnrýnum orðum um þessa nálgun, meðal annars Ragnar Freyr Ingvarsson, sér­fræðing­ur í lyf- og gigt­ar­lækn­ing­um og fyrr­ver­andi yf­ir­maður Covid-göngu­deild­ar Land­spít­ala. Telur hann þær ekki líklegar til árangurs þar sem far­ald­ur­inn er mest­ur meðal barna, ung­linga og ungra full­orðinna í mennta- og há­skóla.

Er yfirhöfuð hægt að ná smitum niður á meðan við erum að halda úti skólahaldi?

„Við þurfum bara að sjá. Yfirleitt tekur það nokkra daga fyrir þessar samkomutakmarkanir að hafa áhrif. En það er alveg rétt, þetta afbrigði er miklu meira smitandi en önnur afbrigði,“ segir Willum.

Rannsókn ÍE komi til með að hjálpa

Magnús Gottfreðsson yfirlæknir á Landspítala hefur meðal annars talað um að hjarðónæmi gegn veirunni sé ekki raunhæfur kostur. Ef það er staðan, á hvaða tímapunkti erum við að horfa til þess að aflétta öllu í samfélaginu?

„Nú erum við að skoða hvernig meðallegutími er að breytast og við þurfum að rýna í þær tölur mjög vel, eftir þeim sem hafa verið að leggjast inn og hvernig staðan er út frá þeim afbrigðum. Delta hefur verið að trufla þetta svona framan af. Svo verður merkilegt að sjá útkomuna úr þeirri rannsókn sem Íslensk erfðagreining er að gera. Það mun hjálpa okkur líka í þeirra ákvarðanatöku til að sjá hversu útbreitt þetta er.“

Sérð þú fyrir þér mörg ár til viðbóta af afléttingum og takmörkunum til skiptis?

„Eins og ég segi, við verðum bara að draga fram meiri upplýsingar til þess að geta fullyrt um það.“ 

Spyrja um mat á kostnað atvinnulífsins

Í minnisblaði sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir lagði fyrir heilbrigðisráðherra áður en nýjar takmarkanir voru samþykktar voru þrír kostir settir fram, óbreytt ástand, hertar sóttvarnaaðgerðir og að lokum mjög strangar takmarkanir. 

Eins og áður hefur komið fram féllst Willum á annan kostinn í stöðunni sem kvað á um hertar sóttvarnaaðgerðir, eða hinn svokallaði milliveg.

Félag atvinnurekenda taldi þó tilefni til þess að senda erindi þar sem spurt er hvort fleiri valkostir hefðu átt að koma til skoðunar, meðal annars með tilliti til þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til í öðrum Vestur-Evrópulöndum.

Er þar meðal annars spurt um möguleikann á bólsetningarskyldu og takmarkanir á óbólusetta, hvort að lagt hafi verið mat á kostnað atvinnulífsins af sóttvarnaaðgerðum og hvort að það hefði verið tekið til skoðunar að ráðast í mun stærra átak til að efla Landspítalann og aðrar heilbrigðisstofnanir.

„Að mati FA hlýtur að koma til skoðunar að beita aðgerðum sem snerta fremur smærri hópa en allan þorra almennings og fyrirtækja, að því gefnu að þær geti skilað sama eða betri árangri í glímunni við faraldurinn,“ segir í erindi FA.

Ýmislegt verið gert til að styrkja heilbrigðiskerfið

Í samtali við mbl.is fyrr í dag sagði heilbrigðisráðherra að ýmislegt hafa verið gert til að efla heilbrigðisþjónustuna og nefnir til að mynda samninga við einkaaðila í heilbrigðiskerfinu og björgunarsveitir. „Við þurfum bara hér öll að hlaupa með heilbrigðiskerfinu okkar og endurheimta fyrri styrk. Það er allt útlit fyrir það að við ráðum við þetta.“

Fjöldi smita hefur ekki farið lækkandi undanfarna daga og það er erfitt að herða samkomutakmarkanir mikið meira. Ef fjöldi smita fer ekki lækkandi eru mögulega forsendur fyrir því að leyfa veirunni að flakka frjálst um samfélagið?

„Það er ekki útilokað að það þróist með þeim hætti. Þunginn á gjörgæslu hefur ekki aukist mikið. Það er ýmislegt að vinna með okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert