Sverrir tjáir sig um ákæruna

Sverrir Einar Eiríksson, eigandi Nýju vínbúðarinnar.
Sverrir Einar Eiríksson, eigandi Nýju vínbúðarinnar. Ljósmynd/Aðsend

Sverrir Einar Eiríksson, eigandi Nýju Vínbúðarinnar, hefur gefið út yfirlýsingu vegna umfjöllunar um ákæru héraðssaksóknara á hendur honum. 

Greint var frá því í dag að Sverrir hafi verið ákærður af héraðssak­sókn­ara fyr­ir skattsvik og pen­ingaþvætti í rekstri þriggja einka­hluta­fé­laga sem hafa öll orðið gjaldþrota og verið af­skráð.

Fé­lög­in þrjú sem um ræðir eru BHG, sem stofnað var árið 2016, Sogið veit­ing­ar og Jupiter gist­ing, bæði stofnuð árið 2018. 

„Héraðssaksóknari hefur nú gefið út ákæru á hendur mér fyrir skattalagabrot vegna þriggja félaga, þar sem ég var ábyrgðarmaður. Fjölmiðlar hafa ákæruna undir höndum og hafa, eðli málsins samkvæmt, fjallað um málið í dag,“ segir Sverrir í yfirlýsingu sinni, sem send var á fjölmiðla í kvöld. 

„Ég hef í nærri aldarfjórðung stundað ýmis konar viðskipti, þó mest fasteignaviðskipti hér á landi og í Bretlandi. Þá hef ég komið að kaupum á gulli og demöntum, stundað lánastarfsemi, veitinga- og gistihúsarekstur, starfsmannaleigu og fleira. Flest hefur gengið vel en vissulega hefur ekki allur rekstur gengið upp með þeim hætti sem lagt var upp með í byrjun, og er það miður.“

„Þau félög sem um ræðir héldu utan um starfsemi á sviði veitingareksturs. Því miður var sá rekstur erfiður og gekk ekki sem upp, þrátt fyrir að ég legði mig allan fram þá varð ég að játa mig sigraðan að lokum. Því fór sem fór með þau félög,“ segir Sverrir. 

mbl.is