„Tilgangurinn helgar pólitíska meðalið“

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir að staðan í heilbrigðiskerfinu snúist um undirmönnun og undirfjármögnun. „Ég tel að ástæðan fyrir stöðunni sé pólitísk hugmyndafræði frekar en að fagleg vinnubrögð ráði ferð.“ Tilgangurinn helgi pólitíska meðalið. 

Þetta kom fram í sérstakri umræðu sem fór fram á Alþingi í dag þar sem rætt var um stöðuna í heilbrigðiskerfinu. 

Björn benti á, að árið 2006 hafi komið út skýrslan sem ber heitið Spá um þörf fyrir vinnuafl í heilbrigðiskerfinu. 

„Þar var gert ráð fyrir því að það þyrfti um 3.400–4.000 hjúkrunarfræðinga árið 2020, en fjöldi starfandi hjúkrunarfræðinga árið 2020 var 3.400. Fjöldi lækna þyrfti að vera á bilinu 1.300–1.600, en fjöldi starfandi lækna árið 2020 var rétt rúmlega 1.400. Það rétt náðist að fylgja spánni um hversu marga hjúkrunarfræðinga og lækna við þyrftum á að halda. Sæmilegt, er það ekki? Nei. Spáin árið 2006 byggðist á mannfjöldaspá Hagstofunnar sem gerði ráð fyrir að 320.000 manns byggju á Íslandi árið 2020. Raunin var hins vegar sú að 1. janúar 2020 voru landsmenn 364.134, rúmlega 44.000 fleiri, næstum því 14% fleiri. Samkvæmt grófri námundun þá vantar einnig um 14% fleira heilbrigðisstarfsfólk að lágmarki. Það ættu því að vera tæplega 3.900 hjúkrunarfræðingar og 1.600 læknar, sem var einmitt hámarkið í spánni árið 2006,“ sagði Björn Leví. 

Undirmönnun og undirfjármögnun væri staðan í heilbrigðiskerfinu. 

„Ég tel að ástæðan fyrir stöðunni sé pólitísk hugmyndafræði frekar en að fagleg vinnubrögð ráði ferð. Ef kerfið er fjársvelt og kjarasamningum er stöðugt beint í Kjaradóm þá grefur það undan vilja fólks sem grefur undan kerfinu. Ég tel að þetta sé ákvörðun sem er tekin af yfirlögðu ráði til að láta einkavæðingardrauma í heilbrigðisþjónustu verða að veruleika, yfirveguð ákvörðun um að landsmenn þurfi að þola skaðann því tilgangurinn helgar pólitíska meðalið. Það er staðan í heilbrigðiskerfinu í dag,“ sagði Björn Leví. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert