Tillögu um að falla frá þéttingu vísað frá

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að falla frá þéttingaráformum við Miklubraut, Háaleitisbraut og Bústaðaveg var vísað frá af meirihluta borgarstjórnar á borgarstjórnarfundi í dag. 

Tillagan sneri að því horfið yrði frá þéttingu við gatnamót Miklubrautar og Háaleitisbrautar í ljósi andstöðu við skipulagsáform þar, eins og kom fram í könnun Gallup sem gerð var fyrir borgaryfirvöld. Tillagan sneri enn fremur að því að borgarstjórn samþykkti að fallið yrði formlega frá þeim áformum sem kynnt hafa verið í hverfaskipulagi Háleitis og Bústaða varðandi þéttingu við Bústaðaveg.

Frávísunartillaga meirihluta borgarstjórnar var samþykkt með 13 atkvæðum gegn tólf, en borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins sat hjá í atkvæðagreiðslunni. 

„Það lýsir miklu kjarkleysi af hálfu meirihlutans að þora ekki að taka þessa tillögu til afgreiðslu,“ sagði í bókun Sjálfstæðisflokksins að atkvæðagreiðslu um frávísunartillöguna lokinni. 

mbl.is