Ekki nokkrum manni bjóðandi

Sæþór Sindri Kristinsson og Guðrún Birna Blöndal með börnin sex …
Sæþór Sindri Kristinsson og Guðrún Birna Blöndal með börnin sex við fermingu

Átta manna fjölskylda í Dölunum sá fram á það að vera símasambands- og sjónvarpslaus í þrjá til fimm daga vegna bilunar í ljósleiðaraboxi heima á bænum. Það væri biðin eftir viðgerðarmanni en raunar rættist fyrr úr því, þar sem bændurnir náðu í gær sambandi við viðgerðarmann sem ætlaði að kippa þessu í liðinn fyrir þá. Hjónin eru samt uggandi yfir öryggi sínu og barnanna sex nú og þegar þetta gerist næst.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Internetið á Valþúfu á Fellsströnd fór af um miðjan dag í fyrradag. Ástæðan var sögð bilun í ljósleiðaraboxi. Var því ekki netsamband, símasamband eða sjónvarp á bænum. Guðrún Birna Blöndal bóndi segir að maður hennar, Sæþór Sindri Kristinsson, hafi komist í síma á nágrannabæ til að óska eftir viðgerð hjá símafyrirtæki þeirra. Svarið hafi verið að það tæki þrjá til fimm daga að fá viðgerðarmann og því ekki verið haggað þrátt fyrir aðstæðurnar.

„Þetta háir okkur að öllu leyti. Við erum með sex börn á aldrinum fjórtán og niður í eins árs. Þau sækja skóla í Búðardal og ekki er hægt að láta okkur vita ef eitthvað kemur fyrir í skólabílnum eða skólanum eða láta vita ef eitthvað kemur fyrir heima,“ sagði Guðrún, þá stödd í Búðardal.

Þau fréttu af viðgerðarmanni í ferð og þess vegna var von til að málið leystist fyrr en óttast var. Eigi að síður segir Guðrún að þetta geti gerst aftur og það sé ekki nokkrum manni bjóðandi. Þau urðu að gefa eftir fastlínusímann á sínum tíma til að fá ljósleiðarann tengdan. Þau fá þau svör við fyrirspurnum um símamastur sem myndi laga ástandið á Valþúfu og næsta bæ og jafnvel á Skógarströnd sem er hinum megin fjarðarins að það sé of dýr aðgerð fyrir jafn fáa íbúa. Skrifaði Guðrún á Facebook-síðu sína í gærmorgun að sér þætti þetta ógeðslegt svar, það væri eins og íbúarnir á Valþúfu og Breiðabólsstað væru ekki nógu mikils virði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »