Fóru menn eitthvað á taugum?

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tíu manna samkomutakmarkanir voru settar á síðastliðinn föstudag eftir að forsvarsmenn Landspítala töluðu um neyðarástand þar og enn fremur var talað um að ekki mætti bíða með aðgerðir. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var spurður á upplýsingafundi almannavarna hvort menn hefðu farið á taugum.

Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans, benti á að þremur dögum eftir að aðgerðir voru hertar hafi komið annað hljóð í strokkinn.

„Fóru menn eitthvað á taugum fyrir helgi?“ spurði Björn Ingi á upplýsingafundinum.

Þórólfur sagði engan hafa farið á taugum og að forsvarsmenn spítalans hefðu talað nokkuð skýrt um ástandið á spítalanum í lengri tíma.

Neyðarstig almannavarna hafi verið sett á vegna ástands í heilbrigðiskerfinu öllu, aðgerðum á Landspítala sé frestað og færa hafi þurft fólk frá öðrum stofnunum til spítalans.

„Fólk hefur tjáð sig öðruvísi innan spítalans en forsvarsmenn hans hafa ekki talað öðruvísi,“ sagði Þórólfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert