Hafa ekki efni á að fara í frí

Margir þekkja eftirvæntinguna sem fylgir því að ferðast.
Margir þekkja eftirvæntinguna sem fylgir því að ferðast. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ein af hverjum sex konum á vinnumarkaði segjast ekki hafa efni á að fara í árlegt frí með fjölskyldunni samkvæmt niðurstöðum könnunar Vörðu– Rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins meðal launafólks, sem birtar voru í dag.

Hæst er þó hlutfallið meðal einstæðra mæðra en 44,5% þeirra hafa ekki efni á árlegu fríi með fjöldskyldunni.

Karlar líklegri til að vera í vanskilum með leigu

Niðurstöður könnunarinnar sýna einnig að 5,9% kvenna og 4,4% karla segjast ekki hafa efni á kjöt-, fisk- eða sambærilegri grænmetismáltíð annan hvern dag og 9,2% kvenna og 8% karla sögðust ekki eiga bíl. Aftur á móti var hærra hlutfall karla en kvenna í vanskilum með leigu eða lán eða 5,9% karla en 4,2% kvenna.

Ein af hverjum sex konum á vinnumarkaði segjast ekki hafa …
Ein af hverjum sex konum á vinnumarkaði segjast ekki hafa efni á að fara í árlegt frí með fjölskyldunni samkvæmt niðurstöðum könnunar Vörðu– Rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins meðal launafólks, sem birtar voru í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Einstæðir feður standa hvað verst þegar litið er til vanskila á leigu eða lánum (11,4%), að hafa ekki efni á sjónvarpstæki (6,7%) og nægilegrar upphitunar á húsnæði (1,7%),“ segir í skýrslu um niðurstöður könnunarinnar.

Ungt fólk utan foreldrahúsa á erfiðara með að ná endum saman

Þegar spurningum var beint sérstaklega að ungu fólki, 35 ára og yngri, í könnuninni kom meðal annars í ljós að ungt fólk sem ekki er búsett í foreldrahúsum er sá hópur sem á oftast á erfitt með að ná endum saman. Á það við um 37,7% ungra kvenna og 35,4% meðal karla.

„Ungt fólk sem býr í foreldrahúsum er aftur á móti sá hópur sem ólíklegast er að eigi nokkuð erfitt, erfitt eða mjög erfitt með að ná endum saman en hlutfallið er 19,7% meðal kvenna og 15,9% hjá körlum,“ segir í niðurstöðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert