Heimsferðir selja 186 miða á Danaleikinn á morgun

Íslendingar mæta frændum okkar og fjendum frá Danmörku á morgun. …
Íslendingar mæta frændum okkar og fjendum frá Danmörku á morgun. Frá vinstri Teitur Örn Einarsson, Bjarki Már Elísson, Orri Freyr Þorkelsson, Ólafur Guðmundsson (13), Arnar Freyr Arnarsson fyrir miðri mynd, Elliði Snær Viðarsson, VIktor Gísli Hallgrímsson, Elvar Örn Jónsson, Aron Pálmarsson og Björgvin Páll Gústavsson. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Heimsferðir munu setja ferðir til Búdapest í Ungverjalandi í sölu síðar í dag og gefa þannig fólki færi á að sjá karlalandsliðið í handbolta etja kappi við fjendur okkar Dani í milliriðli á morgun.

Það gera Heimsferðir til að anna eftirspurn, en Tómas J. Gestsson, framvkæmdastjóri Heimsferða, segir að margir hafi spurt hvort boðið yrði upp á ferðir út til Ungverjalands. 

„Það var mikið spurt um þetta og við erum með lausa vél í Keflavík, 186 sæta Boeing-vél. Þannig við ætlum að leggja af stað klukkan 11 í fyrramálið,“ segir Tómas. 

Tómas Gestsson, framkvæmdastjóri Heimsferða.
Tómas Gestsson, framkvæmdastjóri Heimsferða. mbl.is/Golli

Sambandi var komið á við HSÍ, sem náði að græja miða fyrir mannskapinn, og því eru til miðar fyrir alla þá 186 farþega sem komast með. Einnig er hægt að kaupa bara flug eða bara miða á leikinn. 

Tómas segir að flogið verði heim síðdegis á föstudag að staðartíma og að flug, gisting, rútuferð til og frá flugvelli og rútuferð í handboltahöllina sé innifalið í verðinu, sem er rétt undir 100 þúsund krónum á mann. 

Hagstætt af því vélin var laus

Hann segir einnig að það hafi verið stokkið til fyrir leikinn á morgun af því Boeing-vélin umrædda var laus og klár í flugferð, en skoða þurfi hvort gerlegt sé að fljúga með íslenska stuðningsmenn á fleiri leiki sem framundan eru.

„Nú þarf bara að sjá hvenær vélin er laus. Þetta er náttúrulega hagstætt núna af því vélin bíður bara þarna úti á meðan. Annars þyrftum við að fljúga tómri vél til baka til Keflavíkur til þess að fara með hópinn út og sækja hann aftur.“

Ertu farinn að spá í hvað þið gerið þegar Ísland kemst í úrslitaleikinn?

„Það er kannski of snemmt að fara að ræða það,“ segir Tómas hálfhlæjandi. „Við þurfum bara að skoða hvort vélin sé laus og hvort það væri gerlegt. Það var töluverð eftirspurn og við ætlum bara að skella þessu í gang og með stuttum fyrirvara. Svo erum við bara að skoða framhaldið.“

mbl.is