Kerfið nær ekki utan um kynferðisbrot

„Okkur fannst þörf á rödd kvenna úr lögfræðistéttinni,“ segir Guðný …
„Okkur fannst þörf á rödd kvenna úr lögfræðistéttinni,“ segir Guðný Hjaltadóttir.

Það að þolendur kynferðisofbeldis leiti á samfélagsmiðla til þess að segja sínar sögur er afleiðing af því að réttarkerfið nær ekki utan um vandann sem kynferðisbrot eru í íslensku samfélagi. Um þetta eru konur úr lögfræðistéttinni sem standa að málþingi um #Metoo og réttarkerfið sammála.

„Þó fólk hafi mismunandi skoðanir á því hvort það sé farsælt að þolendur tjái sig á samfélagsmiðlum þá erum við sem að þessu málþingi stöndum sammála um að það sé afleiðing af því að kerfið sé ekki að ná nægilega vel utan um þessi brot. Ég held að það sé erfitt að neita því,“ segir Guðný Hjaltadóttir, lögfræðingur og fundarstjóri málþingsins.

Ýmis lagaleg álitaefni hafa komið upp á yfirborðið í yfirstandandi bylgju #Metoo. Þolendur hafa í auknum mæli stigið fram undir nafni og sagt sínar sögur og jafnvel nafngreint meinta gerendur eða ýjað að því um hvaða menn er að ræða.

„Við ákváðum að halda þetta málþing vegna þessarar þróunar, þar sem einstaklingar eru að tjá sig á samfélagsmiðlum og þessi mál eru auðvitað mjög erfið. Sönnunarstaðan er sérstaklega erfið miðað við önnur mál,“ segir Guðný. „Okkur fannst þörf á rödd kvenna úr lögfræðistéttinni.“

Stórmál að missa æruna og því mikilvægt að passa upp á samþykki

Guðný segir að með málþinginu vilji konurnar taka umræðuna á faglegra plan en hún hefur verið. Að þeirra mati þurfa að verða breytingar á því hvernig réttarkerfið taki á kynferðisafbrotum.

„Sakfellingarhlutfallið er auðvitað lágt í þessum málaflokki. Menn greinir líka á um hvort það eitt og sér sé eðlilegt, hvort sönnunarmatið sé rétt eða ekki en þegar það er svona lágt eru varnaðaráhrifin líka kannski ekki næg. Það mætti í raun vera meiri áhersla á að gerendur passi sig að hafa samþykki enda er það stórmál að missa æruna og þurfa að svara fyrir þessi mál,“ segir Guðný.

Málþingið verður haldið klukkan 12:00 fimmtudaginn 20. janúar í Háskólanum í Reykjavík en það verður í beinu streymi og munu áhorfendur geta spurt spurninga rafrænt. Þar halda Sigrún Ingibjörg Gísladóttir lögmaður,
Dr. Margrét Einarsdóttir prófessor í lagadeild og Dr. María Rún Bjarnadóttir erindi.

„Saklaus uns sekt er sönnuð“ á ekki alltaf við

Margrét mun fara yfir þær reglur sem reynir á þegar einstaklingar greina frá sinni upplifun opinberlega, samspili tjáningarfrelsisins og réttarins til friðhelgi einkalífs og það hvaða þýðingu hin stjórnarskrárvarða regla um að einstaklingur skuli teljast saklaus þar til sekt hefur verið sönnuð hefur í þessum málum.

„Þessari reglu hefur mikið verið flaggað en það eru ákveðnar rangfærslur um þýðingu hennar í málum þar sem einstaklingar eru að tjá sig.“ segir Guðný. „Þetta ákvæði stjórnarskrárinnar bindur löggjafarvald, dómsvald og framkvæmdavald. Til dæmis þegar ríkið ákveður að ákæra einstaklinga – þá þarf það að ganga út frá því að aðilinn sé saklaus þar til hann hefur verið fundinn sekur. En í tilvikum mála þar sem einstaklingar kjósa að tjá sig opinberlega þá hafa þeir ákveðið frelsi til þess. Þá vegast á stjórnarskrárákvæðin um friðhelgi einkalífs annars vegar og tjáningarfrelsið hins vegar. Tjáningarfrelsið takmarkast af réttindum annarra, æru þeirra, sem er vernduð af friðhelgisákvæðinu. Svo er spurning hvar mörkin þar liggja; þú mátt ekki segja hvað sem er. Það er talað um að þú megir ekki segja eitthvað að tilhæfulausu og þú þarft að vera í góðri trú, það þarf eitthvað að liggja fyrir en sönnunarmatið er ekki eins strangt og í sakamálum.“

Sigrún Ingibjörg Gísladóttir lögmaður mun fara yfir meðferð kynferðisbrota hjá lögreglu, sönnunarmat og rannsókn sína á meðferð slíkra mála sem hún er núna með frammi fyrir Mannréttindadómstól Evrópu (MDE). Er þar um að ræða mál níu kvenna sem hafa kært íslenska ríkið til MDE. Eins og mbl.is greindi frá í mars í fyrra höfðu kon­urn­ar all­ar áður kært kyn­ferðisof­beldi, heim­il­isof­beldi eða kyn­bundna áreitni til lög­reglu en mál þeirra voru felld niður eft­ir rann­sókn lög­reglu og var sú ákvörðun staðfest af rík­is­sak­sókn­ara.

Þá mun María Rún Bjarnadóttir fjalla um frumvarp um réttarstöðu  brotaþola sem er á þingmálaskrá og það hvað mætti vera í frumvarpinu.

mbl.is