Læknisstarfið er einstakt og gefandi

Steinunn Þórðardóttir.
Steinunn Þórðardóttir. mbl.is/Sigurður Bogi

„Stjórnvöld þurfa í ríkari mæli að hafa samráð við lækna þegar áherslur í heilbrigðimálum eru mótaðar,“ segir Steinunn Þórðardóttir, nýr formaður Læknafélags Íslands. „Starfsumhverfið þarf að vera aðlaðandi og mikilvægt að læknisstarfið sé eftirsóknarvert, enda hagur samfélagsins alls að gott og hæft fólk sækist í þessi störf. Slíkt þarf raunar að gerast með margvíslegum aðgerðum, enda er heilbrigðisþjónustan í sífelldri og hraðri þróun í krafti þekkingar.“

Auknar fjárveitingar og rækilegar úrbætur

Þegar kallað var eftir nýjum formanni í Læknafélag Íslands á dögunum var Steinunn eini frambjóðandinn og því sjálfkjörin. Hún er önnur konan sem gegnir embætti formanns í rúmlega 100 ára sögu félagsins. Þekkir vel til mála eftir að hafa sinnt félagsstörfum í þágu lækna, auk þess að vera yfirlæknir á heilabilunareiningu öldrunarlækninga Landspítalans.

Starf Læknafélags Íslands, sem um 1.700 manns eru skráðir í, snýr bæði að almennri hagsmunabaráttu lækna og því að vera leiðandi afl í umræðu um heilbrigðismálin. Og almennt talað segir Steinunn lækna sammála um að úrbóta sé þörf. Minnir þar á að síðasta sumar voru fulltrúum heilbrigðisráðuneytis afhentar undirskriftir tæplega 1.000 lækna með áskorun um breytingar til bóta. Auka þurfi fjárveitingar til alls heilbrigðiskerfisins og gera rækilegar úrbætur, ekki síst í öldrunarþjónustu. Læknar þekki vel hvar vandinn liggi og hafi komið ábendingum um slíkt á framfæri. Þau sem ráði för og fjármunum verði að bregðast við.

Steinunn segir að sér hugnist annars vel sú viðleitni Willums Þórs Þórssonar, nýs heilbrigðisráðherra, að vinna að meiri samvinnu lækna og annarra stétta, þvert á rekstrarform. Mikilvægt sé þar að ganga sem fyrst frá málum sérfræðilækna sem hafa verið samningslausir við Sjúkratryggingar Íslands frá árslokum 2018.

Stórslys í Covid

„Í fyrrasumar, þegar undirskriftir lækna voru afhentar, var sagt að heilbrigðiskerfið á Íslandi væri einu skrefi frá stórslysi, sem myndi setja allt á hliðina. Kannski má þó segja að núna í Covid hafi þetta slys orðið. Þannig er framboð á bráða- og gjörgæslurýmum á Landspítalanum með því allra minnsta sem gerist í Evrópu, miðað við höfðatölu. Slíkt hefur skapað mikinn vanda á sjúkrahúsinu, þar sem álagið er mikið og rúmanýting að staðaldri nálægt 100%. Þetta hefur neikvæð áhrif á starfsánægju lækna, samanber könnun sem gerð var meðal almennra lækna sem starfa á spítalanum þar sem 80% aðspurðra þótti vinnustaðurinn ekki aðlaðandi. Þá íhugar um helmingur aðspurðra lækna minnst einu sinni í mánuði að hætta á spítalanum,“ segir Steinunn og heldur áfram:

„Niðurstaða könnunarinnar er umhugsunarverð, því á fyrstu starfsárunum eftir kandídatspróf á læknum að vera falin sífellt meiri ábyrgð og spennandi verkefni undir tryggri handleiðslu. Þetta á að vera skemmtilegur tími í starfi. Sú var að minnsta kosti raunin þegar ég var á þessum stað fyrir 15 árum eða svo. Skýringa á þessari óánægju virðist vera að leita í sívaxandi álagi og undirmönnun, óánægju með starfsumhverfi, kaup og kjör.“

Vísindin haldið í við veiruna

Síðustu tvö árin hefur heimsfaraldur verið mál mála og gjörbreytt veröldinni. Enn hefur ekki tekist að ráða niðurlögum plágunnar, sem frá sjónarhóli læknisfræðinnar er þó býsna áhugaverð, segir Steinunn.

„Kórónuveiran kom fullsköpuð í heiminn og sífellt ný afbrigði hennar skjóta upp kollinum. Vísindin hafa þó haldið í við veiruna. Þróun bóluefna tók skemmri tíma en búast hefði mátt við og læknar eru alltaf að læra eitthvað nýtt við þessar fordæmalausu aðstæður. Lokanir og hömlur hafa verið óhjákvæmilegar til að verja heilbrigðiskerfið og starfsfólk, sem hefur barist í gegnum hvern álagstoppinn af öðrum af ótrúlegri þrautseigju og þolgæði. Í faraldrinum höfum við líka séð að íslenskir læknar – rétt eins og annað heilbrigðisstarfólk – eru á heimsmælikvarða; margir menntaðir í fremstu háskólum og sjúkrahúsum heims. Ísland þarf að vera samkeppnishæft um þennan hóp og bæta aðstæður hans, því læknisstarfið er alþjóðlegt í eðli sínu. Læknar geta leitað óhikað á ný mið í útlöndum, ef því er að skipta.“

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út 17. janúar. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert