Líklega öfl­ug­asta sprengigos á jörðinni í 30 ár

Gervihnattamynd sem var tekin 15. janúar sem sýnir gosið í …
Gervihnattamynd sem var tekin 15. janúar sem sýnir gosið í Hunga-Tonga-Hunga-Haa'pai. AFP

Eldgosið sem braust út í Tonga-eyjaklasanum í Kyrrahafi um helgina var að öllum líkindum kraftmesta gos aldarinnar hingað til. 

Þetta segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, í svari sínu við fyrirspurn lesanda á Vísindavef Háskóla Íslands. Magnús segir að fátt sé enn hægt að fullyrða um gosið en að samanburður við önnur gos sé gagnlegur og tekur dæmi um Grímsvatnagosið árið 2011. 

Magnús Tumi Guðmunds­son, pró­fess­or í jarðeðlis­fræði.
Magnús Tumi Guðmunds­son, pró­fess­or í jarðeðlis­fræði. Ljósmynd/Almannavarnir

„Í Grímsvatnagosinu 2011 náði mökkurinn í um 20 km en sú hæð samsvarar kvikuflæði sem nemur 30.000-50.000 tonnum á sekúndu. Gosið í Hunga Tonga var miklu öflugra.“

Neðst í svari sínu heldur Magnús samanburði sínum við gosið í Grímsvötnum áfram og segir gosið í Honga Tonga hafa verið miklu kraftmeira. 

„Gosið í Grímsvötnum 2011 er stærsta sprengigos sem orðið hefur á Íslandi eftir 1918. Í Grímsvötnum kom upp gjóska sem samsvaraði fjórðungi úr rúmkílómetra af föstu bergi. Gosið í Hunga Tonga, gæti á hálfum sólarhring, hafa framleitt fjórfalt það magn. Enn er ekki ljóst hvort gosið 15. janúar er hámark umbrotanna eða hvort meira á eftir að koma. Tíminn mun leiða það í ljós. En hvernig sem þessu er snúið eru allar líkur á að þarna hafi orðið öflugasta sprengigos á jörðinni frá því það gaus í Pinatubo á Filippseyjum fyrir 30 árum.“

Gríðarstórt á alla mælikvarða

Magnús segir að gosið í Hunga Tonga hafi myndað gosmökk sem náði um 30 kílómetra hæð, tíu kílómetrum hærra en í Grímsvatnagosinu. Þá hafi gervitunglamyndir sýnt að mökkurinn hafi verið um 400 kílómetrar á breidd og um 600 kílómetrar að lengd. 

Gosið bjó til öfluga hljóðbylgju sem heyrðist meðal annars í Alaska. Mælingar sýna að þessi þrýstibylgja ferðaðist umhverfis hnöttinn. Það er ekki algengt. Slíkt gerðist fyrst svo eftir væri tekið í Krakatá-gosinu 1883, en þá voru komnar til sögunnar nægilega góðar mælingar til að nema slíkt. Í Krakatá fór þrýstibylgjan sjö sinnum kringum hnöttinn. Bylgjan nú er augljóslega miklu minni og gosið líka,“ segir Magnús Tumi í svari sínu.

AFP

Magnús nefnir einnig hve mikið gosefni hafi spýst út í andrúmsloftið er ósköpin hófust. Hann segir að skýr fylgni sé á milli þess hve háir gosmekkir verða í sprengigosum og hve mikið gosefni streymir út gígnum. 

„Mjög sterk tenging er milli hæðar gosmakkar og kvikuflæðis. Magnið sem kemur upp á tímaeiningu tengist hæðinni í fjórða veldi. Það þýðir að ef hæðin tvöfaldast hefur flæðið vaxið sextánfalt. Til eru einföld líkön sem tengja saman makkarhæð og magn kviku sem kemur upp. Þessi líkön eru ekki mjög nákvæm en sýna að til að búa til 30 km háan mökk þurfi um 200.000 tonn af gjósku á sekúndu!“

Magnús Tumi setur fram töflu þar sem gera má samanburð …
Magnús Tumi setur fram töflu þar sem gera má samanburð milli Honga Tonga-gossins, Grímsvatnagossins og fleiri stórra eldgosa. Skjáskot/Háskóli Íslands
mbl.is