„Er hann fluttur til útlanda?“

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Arnþór

Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu mjög viðveru, eða frekar fjarveru, ráðherra ríkisstjórnarinnar í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag en tveir af tólf ráðherrum voru til svara í þingsal.

„Það að bara tveir af tólf ráðherrum séu til svara er algjörlega óásættanlegt,“ sagði Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar en þingmenn úr öllum stjórnarandstöðuflokkum, nema Miðflokki, gagnrýndu fjarveru ráðherra.

Oddný sagði að forseti Alþingis, Birgir Ármannsson, yrði að sjá til þess að slík staða kæmi ekki aftur upp.

„Þetta minnir á tímann fyrir hrun þegar ráðherraræðið var algjört,“ sagði Oddný. Hún bætti við að ráðherrar starfi í umboði þingsins og hafi skyldum að gegna.

„Hvar er fjármálaráðherra, er hann fluttur til útlanda?“ spurði Oddný enn fremur en Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra er ekki á landinu, eins og fram kom á mánudag.

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins.
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, spurði hvort aðrir ráðherrar en þeir sem mættir voru, Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir vísinda,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, væru farnir í frí.

mbl.is