Fleiri á spítala með Covid heldur en vegna Covid

Innlagnarhlutfall af völdum kórónuveirunnar hefur hrunið á síðustu vikum.
Innlagnarhlutfall af völdum kórónuveirunnar hefur hrunið á síðustu vikum. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

Meirihluti þeirra sjúklinga sem greinst hafa með kórónuveirusmit og liggja nú á spítala, var ekki lagður inn vegna Covid-19 sjúkdómsins. 

Þetta kemur fram í svörum Landspítala.

Hrun hefur orðið á innlagnarhlutfalli vegna kórónuveirunnar síðustu vikur og hafa svartsýnar spár spítalans sem kynntar voru fyrir tveimur vikum ekki gengið eftir.

32 sjúklingar eru nú á spítala sem greinst hafa með kórónuveirusmit sem er einum færri en í gær, þegar sjúklingarnir voru 33. Fjöldi á gjörgæslu hefur ekki breyst milli daga en þar liggja þrír sjúklingar, allir í öndunarvél. 

Ekki eru allir þeir sjúklingar sem liggja nú inni á spítala með kórónuveiruna þar vegna Covid-19, heldur hefur hluti þeirra lagst inn af öðrum sökum. Þá hafa sjúklingar einnig smitast á Landspítala af kórónuveirunni.

Veikindi virðast vægari

Veikindi af völdum Ómíkron-afbrigðisins eru talin mun vægari en veikindi af völdum fyrri afbrigða veirunnar. Eru einnig vísbendingar um að innlagnarhlutfall meðal sýktra og óbólusettra einstaklinga á aldrinum 50 til 74 ára, hafi hríðlækkað og farið úr 6-8% niður fyrir 1%.  

Almennt er innlagnartíðni talin vera á bilinu 0,5-0,3% af völdum Ómíkron-afbrigðisins, en ekki 0,7% eins og talið var í fyrstu þegar tekið var mið af gögnum erlendis.

Álag á spítalann enn mikið

Á móti kemur að Ómíkron-afbrigðið dreifist mun hraðar og víðar, sem veldur því að álag er enn mjög mikið á Landspítala. Þurfa sjúklingar sem greinast ávallt að vera í einangrun, sama hvort þeir séu inni með eða vegna Covid-19.

163 starfsmenn spítalans eru nú í einangrun eða innlögn vegna kórónuveirusmits en alls greindust 28 starfsmenn með veiruna í gær. 

Bitnar þetta á annarri þjónustu sem veitt er á Landspítala og eru því einungis nauðsynlegar skurðaðgerðir framkvæmdar. 

Ekki er talin þörf á að lækka viðbúnaðarstig Landspítala enn sem komið er en hann starfar nú á neyðarstigi. Staðan er metin á hverjum degi en samkvæmt upplýsingum spítalans verður viðbúnaðarstig lækkað um leið og hægt er.

mbl.is

Bloggað um fréttina