Í fimbulkulda á fjarlægri slóð

Íslensku félögin Arctic Trucks Polar og Loftleiðir Icelandic, dótturfélag Icelandair, hafa haslað sér völl á Suðurskautslandinu. Flugfélagið hefur haldið uppi reglulegum ferðum til Suðurskautslandsins frá Suður-Ameríku og Suður-Afríku að undanförnu.

Sérbreyttir bílar Arctic Trucks Polar hafa valdið byltingu í samgöngum í þessari víðfeðmu auðn. Þeim hefur verið ekið 356 þúsund kílómetra um óravíðáttur Suðurskautslandsins í tengslum við mörg ólík verkefni allt frá árinu 1996. Félagið hefur aflað sér trausts og virðingar í samfélagi þjóðanna á Suðurskautslandinu og á sæti í ýmsum ráðum og nefndum auk þess að vera hluti af leitar- og viðbragðsaðilum þegar eitthvað ber út af.

Íslensku fyrirtækin Arctic Trucks Polar og Loftleiðir Icelandic hafa haslað …
Íslensku fyrirtækin Arctic Trucks Polar og Loftleiðir Icelandic hafa haslað sér völl á Suðurskautslandinu. Pallbílnum var breytt samkvæmt hönnun Arctic Trucks Polar og byggist hún á langri reynslu af jöklaferðum á Íslandi og Suðurskautslandinu. Í baksýn er þota Loftleiða Icelandic sem hefur flogið á milli Punta Arenas í Síle og Suðurskautslandsins undanfarið.

Sjö ferðir til Suðurskautslands

„Það er magnað sem er að gerast á Suðurskautslandinu. Nú kemur maður um borð í flugvélina og er heilsað á íslensku,“ segir Emil Grímsson, stofnandi Arctic Trucks og framkvæmdastjóri Arctic Trucks Polar. Hann á að baki um 20.000 km bílferðir þarna á hjara veraldar og sneri heim í desember úr sjöundu ferð sinni til Suðurskautslandsins.

„Núna eru 27 bílar frá okkur á Suðurskautslandinu, þar af eru fjórir í okkar eigu. Við höfum rekið þar 6-7 bíla en erum búnir að selja þá elstu og hugum að endurnýjun,“ segir Emil. White Desert-lúxusferðaþjónustan keypti elstu bílana. Á meðal annarra sem nota bíla frá Arctic Trucks Polar eru heimskautastofnanir Þýskalands, Kína, Indlands, Suður-Kóreu, Finnlands og Frakklands. Þá eru nokkur rannsóknarverkefni með bíla frá þeim.

Rannsóknarstöðvar hinna ýmsu þjóða eru flestar við ströndina á Suðurskautsskaganum. Nokkrar þjóðir reka stöðvar allt árið um kring á öðrum stöðum, helst þar sem hægt er að komast með ísbrjótum yfir sumarmánuði. Bandaríkjamenn reka langstærstu stöðina, McMurdo, við Ross Sea. Auk þess eru þeir með stöð á Suðurpólnum. Þar eru upp í 135 manns á sumrin en yfir vetrarmánuði er ekki hægt að komast þangað eða þaðan og dettur þá niður fjöldinn í um 35 mans.

Leiðangrar Arctic trucks um Suðurskautið.
Leiðangrar Arctic trucks um Suðurskautið. kort/mbl.is

Rússar reka einnig stóra stöð við ströndina sem snýr að Atlanshafi, Novolasarevskaja. Þar rétt við hefur Arctic Trucks lengst af byggt stærstan hluta starfsemi sinnar. Einnig má nefna Vostok-stöðina sem Rússar reka langt inni á jökulhvelinu og er einn kaldasti staður jarðar.

Suðurskautslandið samsvarar að flatarmáli samanlögðu flatarmáli Bandaríkjanna og Mexíkó. Alþjóðlegur samningur er um landið, eða heimsálfuna, og starfsemi þar. Ísland á aðild að honum. Öll starfsemi Arctic Trucks Polar sem ekki tengist vísindalegum verkefnum aðildarþjóða er háð leyfum. Ísland gefur ekki út

slík leyfi og hefur Arctic Trucks Polar sótt um þau hjá bresku utanríkisþjónustunni. Það samstarf hefur gengið afar vel.

Allt sem tengist ferðaþjónusta er háð ströngum skilyrðum. Emil sagði að um 98% hennar séu á Suðurskautsskaganum. Ferðamenn sigla þangað frá Suður-Ameríku, skreppa í land og sigla til baka. Frá enda skagans er lengra til Suðurpólsins en frá Íslandi til Norðurpólsins. Milli 1-2% af ferðaþjónustu og þá mikið til fólk eða hópar á borð við pólfarana Vilborgu, Harald Örn og fleiri sem sækja í einstaka lífsreynslu fara í leiðangra sem kallast „deep field“, langt inn í auðnir heimskautssvæðisins. Ferðaþjónusta tengd starfsemi Arctic Trucks styður við slík ævintýri en lætur einnig aðra drauma fólks rætast. Býr til leiðangra á bílum til að komast á nýja staði eða fara leiðir sem enginn hefur áður farið. Helsti upphafspunktur slíkra ferða í dag er Union-jökullinn. Loftleiðir Icelandic sjá nú um allt farþegaflug þangað. Lent er á þriggja km langri flugbraut úr ís.

Mikil þróun í bílabreytingum

Fyrstu bílarnir sem sendir voru héðan á Suðurskautslandið 1996 voru tveir Toyota Land Cruiser 80-jeppar á 44 tommu dekkjum. Þeir voru útbúnir eins og íslenskir jöklajeppar voru þá en með snjósprungugrind sem var íslensk uppfinning. Emil sagði að þeir hafi lært mikið síðan þá og þróað bílabreytingarnar til að mæta krefjandi aðstæðum á Suðurskautslandinu.

„Demparagormar brotnuðu fyrst í kuldanum og það var vesen með raftengingar og fleira. Dekkin sem við notuðum voru ekki gerð fyrir þennan mikla kulda og gátu brotnað í mesta frostinu. Ef dekkin kólnuðu gat verið erfitt að komast aftur af stað aftur því gúmmíið stirðnaði.

Starfsmenn Arctic Trucks Polar þurfa að geta sinnt öllu viðhaldi …
Starfsmenn Arctic Trucks Polar þurfa að geta sinnt öllu viðhaldi og viðgerðum. Það er mjög langt á næsta verkstæði.

Við fengum Nokian í Finnlandi til að þróa með okkur ný dekk sem þoldu betur kuldann, voru góð í snjó en stóðust líka kröfur um götuakstur svo það væri hægt að markaðssetja þau víðar. Það varð mikil framför þegar þessi dekk komu.

Við þurftum líka að styrkja burðarvirki bílanna, sem gat brotnað vegna kuldans. Eitthvað sem ekki þurfti að hafa áhyggjur af hér á Íslandi,“ segir Emil.

Skipt var nær alfarið í Toyota Hilux-pallbíla fyrir Suðurskautslandið. Emil sagði ástæðuna aðallega meiri burðargetu miðað við þyngd bílanna. Vegalengdir eru gríðarlegar og leiðangrar geta staðið vikum saman. Taka þarf með allar vistir, eldsneyti, varahluti og annan búnað. Ekkert má skilja eftir sig svo taka verður úrgang frá leiðangursmönnum og sorp til baka. Til að auka burðargetu fóru Arctic Trucks að lengja bíla og bæta þriðja öxlinum við þannig að þeir urðu sex hjóla með drifi á öllum.

Hönnunin miðaði að því að fækka varahlutum og verkfærum sem mest. Reynt er að nota sömu öxla, fjaðrabúnað, legur og annað slíkt í alla bíla og kerrur.

„Reynslan sem varð til í jeppaferðum hér á Íslandi hefur reynst alveg mögnuð á Suðurskautslandinu,“ segir Emil. Hann sagði ekki raunhæft að nota snjósleða til lengri ferða þar vegna fimbulkuldans. „Ef menn velja hins vegar að nota snjóbíla frekar en breytta pallbíla þá erum við að tala um 5-10 sinnum meiri eldsneytiseyðslu og 3-5 sinnum lengri ferðatíma. Margir leiðangrar væru ekki framkvæmanlegir nema á breyttum bílum. Þeir hafa opnað nýjar dyr.“

Notað er flugvélaeldsneyti á bílana því það flýtur vel í kuldanum. Bætt er smyrjandi vaxi í eldsneytið rétt áður en því er dælt inn í háþrýsta vélina. Notaðar eru öflugar eldsneytissíur til að hreinsa ísingu úr eldsneytinu. Auk þess þarf að huga sérstaklega að loftsíunum í kuldanum.

Einstök lífsreynsla

Emil segir að dvöl á Suðurskautslandinu sé alveg einstök lífsreynsla. „Hversdagslegir hlutir sem eru svo oft í kollinum á manni í dagsins önn hverfa þarna algjörlega úr huganum. Þú ert bara á staðnum og mjög meðvitaður um hlutverk þitt og þeirra sem þú ferðast með. Lífið verður einfaldara og hefðbundið daglegt líf mjög fjarlægt,“ segir Emil.

Á Suðurskautslandinu virka bara gervihnattasímar og Emil segir að það sé ekkert gaman að tala í þá. Mikil seinkun er oft á merkinu með tilheyrandi bergmáli og samband getur verið lélegt. Það þarf því oft að hvá og biðja viðmælandann að endurtaka það sem hann sagði. Símtölin vilja því verða stutt og bara um það allra nauðsynlegasta.

Arctic Trucks færir út kvíarnar

Þrjú félög starfa hér undir merkjum Arctic Trucks. Það er Arctic Trucks Íslandi, Arctic Trucks International sem heldur utan um vörumerkið og sérleyfi. Svo er nýtt félag Arctic Trucks Polar sem heldur utan um alla starfsemi og þjónustu á Suðurskautinu, Grænlandi og Norður-Ameríku sem tengist pólstarfsemi.

Fyrirtæki með sérleyfi frá Arctic Trucks International starfa nú í Noregi, Stóra-Bretlandi, Póllandi, Sameinuðu arabísku furstadæmunum (Dúbaí) og Rússlandi. Starfsmenn eru alls rúmlega 200. Ástralía, Suður-Afríka og Suður-Ameríka eru nú til skoðunar.

Leiðangursmenn þurfa að hafa allt með sér í langar ferðir, …
Leiðangursmenn þurfa að hafa allt með sér í langar ferðir, eldsneyti, búnað, vistir og varahluti. Eins verða þeir að taka allan úrgang og sorp til baka. Hlaðið er á bílana og notaðar kerrur og sleðar til að flytja allt sem þarf.

Markaðssókn með sérbúna pólbíla er að hefjast í norðurhéruðum Kanada og í Alaska. Emil segir að menn í Norður-Ameríku hafi sýnt bílum Arctic Trucks mikinn áhuga í gegnum tíðina. Toyota Hilux hefur verið notuð nánast eingöngu á Suðurskautslandinu og frábær reynsla fengist af bílnum. Ekki hefur þótt vænlegt að sækja á Norður Ameríkumarkað með þann bíl.

Fyrir nokkrum árum var farið að leita að stærri bíl sem væri útbreiddur í Norður-Ameríku. Eftir mikla leit varð Ford F-150-pallbíll fyrir valinu. Hann var kominn með díselvél, sem reyndar var svo hætt að bjóða upp á. Fordinn er rýmri að innan en Hiluxinn, en litlu þyngri því öll yfirbyggingin er úr áli. Þekkt er hvað bílar af þessari þyngd eyða af eldsneyti, sem fækkar óvissuþáttunum. Auk þess hefur Ford F-150 lengi verið vinsælasti pallbíll í N-Ameríku og auðvelt að fá varahluti í hann. Emil sagði að áhuginn frá N-Ameríku hafi margfaldast þegar farið var að ræða um að breyta Fordinum fyrir notkun á pólsvæðunum. „Það er mjög spennandi verkefni að komast inn á Ameríkumarkað, en ekki auðvelt,“ sagði Emil.

Í undirbúningi er leiðangur fyrir viðskiptavin á breyttum bílum um norðvesturhéruð Kanada. Lagt verður upp frá Yellowknife og ekið á ísvegum að námum. Svo hefur verið teiknuð ný leið út á hafísinn. Fylgt verður leiðinni sem Franklín-leiðangurinn fór í að leita að norðvesturleiðinni, þar sem hann týndist. „Ég held að það séu heilmikil tækifæri í því að bæta samgöngur í norðurhéruðum Kanada og í Alaska með breyttum bílum að íslenskum hætti,“ sagði Emil.

Katla, þota Loftleiða Icelandic, og jöklajeppi frá Arctic Trucks Polar …
Katla, þota Loftleiða Icelandic, og jöklajeppi frá Arctic Trucks Polar á Union jökli.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert