Vilja að ráðherra rökstyðji reglur fyrir þinginu

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks.
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks. mbl.is/Arnþór

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ásamt fleiri þingmönnum sama flokks hafa lagt fram frumvarp til breytingar á sóttvarnalögum þess efnis að tillögur sóttvarnalæknis verði kynntar velferðarnefnd þingsins ef setja á takmarkandi reglur eftir þeim. 

Í ákvæðinu, sem lagt er til að bætist við sóttvarnalögin, segir að ráðherra skuli kynna ákvörðun um setningu reglna í velferðarnefnd Alþingis áður en þær taka gildi eða svo fljótt sem verða má verði því ekki komið við. 

Rökstuðningur í formi skýrslu

Verði takmarkandi reglur settar skuli ráðherra skila þinginu skýrslu svo fljótt sem auðið er, þar sem komi fram ítarleg rök fyrir nauðsyn þeirra. 

Þrátt fyrir að sóttvarnaaðgerðir þurfi vissulega ávallt að vera byggðar á læknisfræðilegu mati og slík sjónarmið vegi óneitanlega þungt þá eru engu að síður önnur atriði sem huga þarf að þegar reglur sem fela í sér miklar langtímafrelsisskerðingar eru settar. Slíkar skerðingar hafa óhjákvæmilega í för með sér margvíslegar félags- og efnahagslegar afleiðingar sem nauðsynlegt er að líta til þegar ákvarðanir um sóttvarnaráðstafanir eru teknar,“ segir í greinagerð frumvarpsins. 

„Þetta gefur þingmönnum tækifæri til að koma að umræðu um málið við ákvarðanatöku og ráðherra tækifæri til að tryggja pólitískan stuðning,“ segir Bryndís Haraldsdóttir í samtali við mbl.is um tilefni og nauðsyn frumvarpsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert