Kannast ekki við að hafa birt mynd af Vítalíu

Sigurður G. Guðjónsson.
Sigurður G. Guðjónsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hæstarréttarlögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson segist ekki kannast við að hafa tekið mynd af Vítalíu Lazarevu og birt á Facebook, sem var þó að finna á Facebook-síðu hans í morgun. „Ég kann ekkert á Facebook,“ segir Sigurður í samtali við mbl.is.

Þekkt taktík hjá lögmönnum að hræða kærendur

Vítalía, sem hefur sakað hóp þjóðþekktra manna um kynferðisofbeldi, birti skjáskot af myndinni umræddu á Twitter, rétt eftir miðnætti í gær, með eftirfarandi texta:

„Það er ekkert spes að lögfræðingur sem ég þekki ekki baun í bala taki mynd af mér þegar ég er að labba inn á fund að hitta minn lögmann... Það sem er ennþá meira spes er að hann póstar myndinni á Facebookið sitt. HJÁLP.“

Tístið fór í kjölfarið sem eldur um sinu á Twitter en þegar þessi frétt er skrifuð hafa rúmlega átta hundruð manns hafa líkað við tístið og 24 deilt því, þar á meðal þingmaðurinn Gísli Ólafsson. Hann segir það þekkta taktík hjá lögmönnum að reyna hræða kærendur skjólstæðinga sinna.

„Ég hef aldrei birt neina mynd af henni“

Þegar mbl.is náði tali af Sigurði til að spyrja út í myndbirtinguna kom hann alveg af fjöllum. Það hafi helst komið honum á óvart að hann hafi ekki verið látinn vita af þessu fyrr.

„Ég hef aldrei birt neina mynd af henni á Facebook. Mér finnst bara svo merkilegt ef þetta hefur verið í Story eða Feature að konan mín eða dætur mínar hafi ekki tekið eftir þessu. Ég kann ekkert á Facebook. Ég hef alveg skrifað texta og birt myndir af einhverju sem tek myndir af en þá tengist það alltaf texta sem ég hef skrifað þannig ég átta mig ekki á þessu.“

Spurður hvort hann hafi verið á staðnum þegar sem myndin var tekin, óháð því hvort hann hafi tekið hana sjálfur eða ekki, svarar Sigurður neitandi. Þá segist hann ekki vera lögmaður neinna þeirra manna sem Vítalía hefur sakað um að hafa brotið á sér, inntur eftir því.

„Þeir eru allir með lögfræðinga. Ég veit alveg hverjir þeir eru.“

Myndir í Feature sem hann hafði fengið sendar

Sigurður segir nokkrar myndir sem hann hafi fengið sendar í gegnum tíðina verið birtar í Feature á Facebook, þar sem myndin af Vítalíu var birt. Kveðst hann þó ekki vita hvernig þær komust þangað.

„Þar eru myndir sem ég hef fengið sendar t.d. af mér í laxveiði, í hjólreiðatúr, með pabba mínum og mömmu þegar ég var barn. Ég held þetta hafi verið einhverjar sex myndir og til þess að vera ekki að ónáða fólk þá var þessi mynd þarna öftust.“

Þá segist hann vera búinn að taka allar myndirnar sem voru í Feature út og að hann hyggist leita skýringa á því hvernig myndin af Vítalíu komst þar inn.

„Ég þarf bara að skoða það af hverju hún er þarna öftust, hver hefur sett hana þar og hvort einhverjir aðrir geta föndrað við mitt Facebook, ég veit bara ekkert um það. Ég þarf bara að láta kíkja á tölvuna mína og símann minn.“

Geti verið kærður fyrir myndbirtinguna

Inntur eftir því segist Sigurður ekki hafa séð umrædda mynd af Vítalíu áður. Hann hafi fyrst heyrt af henni þegar tengdasonur hans hafi hringt í hann og spurt hvers vegna hann hafi birt myndina í Feature.

„Ég sagði bara „Hvað er Feature?“. Þannig ég er bara ekki betur að mér í þessu.“

Skilur þú hvers vegna myndbirting af þessu tagi gæti vakið óhug?

Já, það má bara vel vera að það veki óhug hjá einhverjum en ég hef ekki birt þessa mynd. Hafi ég birt hana verð ég að skoða það. Ég veit ekki hvernig í ósköpunum það hefur gerst. Eins og ég segi það kemur bara allt í ljós. Ég get verið kærður fyrir þetta eins og allt annað. Þá tekur lögreglan bara símann minn og skoðar hvað í honum er. Internetið gleymir engu.“ 

Ekki náðist í Vítalíu við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is