Nöfnin Brim, Fjara og Jöklar nú leyfð

mbl.is/Eggert

Fjöldi nafna hefur verið færður á mannanafnaskrá eftir nýlega úrskurði mannanafnanefndar. Þannig mega karlmenn nú bera eiginnöfnin Issa, Chris, Bæssam, Rósmar, Lúgó, Sólmáni og Jöklar. Beiðni um eiginnafnið Laxdal var hins vegar hafnað.

Þá var samþykkt beiðni um aðlögun kenninafns. Foreldrar fóru þess á leit að sonur þeirra yrði kenndur til föður síns, Yuriys, og að nafnið yrði jafnframt lagað að íslensku máli. Samþykkt var að kenninafn drengsins yrði skráð Georgsson í þjóðskrá.

Konur mega nú bera eiginnöfnin Brim, Lóley, Fjara og Haffý auk þess sem samþykkt var að Viola skyldi fært á mannafnaskrá með vísan í hefð nafnsins hér á landi.

Mannanafnanefnd tók nýverið fyrir að nýju ósk um að karlkynsnafnið Regin yrði leyft. Í beiðni um endurupptöku málsins var meðal annars vísað í fyrri úrskurði nefndarinnar er varða nöfn á borð við Elliott, Kateri, Hunter, Rosemarie, Erykah, Ullr, Leonardo og Theo. Nefndin ákvað að leyfa nafnið Regin nú enda beri þrír karlar nafnið sem eiginnafn í þjóðskrá og ritháttur þess geti þýtt að það sé tökunafn úr til dæmis færeysku eða dönsku.

Að síðustu féllst mannanafnanefnd á kvenkynsnafnið Moon í annarri tilraun. Áður hafði því verið hafnað sem millinafni en nú var það samþykkt sem eiginnafn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert