„Og hún hefur verið þar allan tímann“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir mjög mikilvægt að ákvarðanir um sóttvarnaaðgerðir og samkomutakmarkanir byggi á bestu mögulegu vísindum og gögnum.

Hún telur jafnframt þá ákvarðanatöku eiga heima í höndum heilbrigðisráðherra, þar sem hún hefur verið frá upphafi faraldurs.

Spurð út í frumvarp sjálfstæðismanna sem kveður á um að velferðarnefnd Alþingis fái meiri upplýsingar um tillögur sóttvarnalæknis sem lagðar eru til grundvallar samkomutakmarkana, segir Katrín að heilbrigðisráðherra hafi boðað heildarendurskoðun á sóttvarnarlögum.

„Ég held að þetta sé einmitt lagabálkur sem skiptir máli að fái vandaða meðferð. Það er von á því frumvarpi í mars á þingið. Ég held að það sé nú besta leiðin til að takast á við þessi lög.“

Ákvarðanatakan hefur alltaf verið í höndum ráðherra

Diljá Mist Einarsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði á þingi í gær að mikilvægt væri að horfast í augu við að veiran væri komin til að vera. Taldi hún hlutverk og forystu þríeykisins hafa verið ómetanlegt í upphafi faraldurs en óhjákvæmilegt væri að taka völdin aftur inn á svið stjórnmálanna. Það yrði að gerast ekki seinna en núna.

Spurð hvort henni þyki mikilvægt að leggja meiri áherslu á aðkomu þingsins þegar kæmi að ákvarðanatöku varðandi sóttvarnaaðgerðir, og þá sömuleiðis draga úr áhrifum þríeykisins, segir Katrín sína afstöðu vera sú að ákvarðanatakan eigi heima í höndum heilbrigðisráðherra. 

„Og hún hefur verið þar allan tímann,“ bætir hún við. 

„Mín afstaða er jafnframt sú að það sé mjög mikilvægt að byggja á bestu mögulegu vísindum og gögnum. Veiran er ekki í neinum pólitískum flokki. Hún er viðfangsefni sem skiptir máli að við tökumst á með bestu vísindalegu þekkingu að vopni.

Búið að innleiða ákveðnar afléttingar

Í ljósi fregna af lægra innlagnarhlutfalli af völdum Ómíkron-afbrigðisins hafa margir kallað eftir afléttingu sóttvarnaaðgerða þrátt fyrir að fjöldi greindra smita á dag hafi ekki farið lækkandi upp á síðkastið. Þar á meðal eru ráðherrar Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn.

Hefur dregið mikið úr samstöðu í ríkisstjórn varðandi aðgerðir í faraldrinum?

„Staðan í þessum málum er bara eins og hún hefur verið. Hins vegar er faraldurinn að einhverju leyti að breyta um eðli. Við erum að sjá mörg smit og lágt innlagnarhlutfall en til viðbótar bætist við að – eins og heilbrigðisráðherra nefndi – þá vantar 160 til 200 manns í vinnu á Landspítala. Það auðvitað hefur þær afleiðingar að einkafyrirtæki eru að loka til þess ða geta sett sitt fólk á Landspítala,“ segir Katrín sem kveðst einnig bjartsýn á framhaldið enda lofi innlagnarhlutfallið mjög góðu.

Þá vill hún jafnframt vekja athygli á því að í raun sé búið að innleiða ákveðnar afléttingar þegar kemur til að mynda að fyrirkomulagi einangrunar, sóttkvíar og smitgátar.

mbl.is