Segir FÍB refsað fyrir gagnrýni

Runólfur Ólafsson er formaður FÍB.
Runólfur Ólafsson er formaður FÍB. mbl.is/Árni Sæberg

Sjóvá rifti samningi við FÍB-aðstoð aðeins nokkrum vikum eftir að FÍB gagnrýndi tryggingafélagið fyrir milljarða króna greiðslur til hluthafa. FÍB-aðstoð hefur annast Vegaaðstoð Sjóvár síðan 2007 og engan skugga borið á þau viðskipti. Engar skýringar fylgdu fyrirvaralausri uppsögninni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá FÍB. 

„Ekki er hægt að álykta annað en að stjórnendur Sjóvár hafi sagt viðskiptunum upp til að refsa FÍB fyrir gagnrýni á 5 milljarða króna greiðslur til hluthafa tryggingafélagsins. Uppsögnin barst í lok október, aðeins fjórum vikum eftir að FÍB birti áskorun til Sjóvár um að skila ofteknum iðgjöldum til viðskiptavina frekar en láta þau renna í vasa hluthafa,“ segir í tilkynningunni.

Sjóvá greiddi fasta upphæð mánaðarlega til FÍB-aðstoðar fyrir að sjá um Vegaaðstoð fyrir félaga í Stofni. Í tilkynningunni segir að samstarfið hafi verið gott en tímasetning uppsagnarinnar sýni ofurviðkvæmni stjórnenda Sjóvár fyrir heilbrigðu aðhaldi hagsmunasamtaka neytenda.

„Lífeyrissjóðir launafólks eiga 48,3% hlutafjár í Sjóvá. Það skýtur óneitanlega skökku við að stjórnendur fyrirtækis í eigu almennings hafi ekki þrek til að þola gagnrýni,“ segir í tilkynningu FÍB.

mbl.is