Verið að hræða líftóruna úr ungu fólki

Pistlahöfundur mbl.is, Sigurður Már Jónsson telur að umræðan um loftslagsmál sé á köflum einsleit og harkaleg. Sérstaklega lítur hann gagnrýnum augum á með hvaða hætti ríkissjónvarpið fjallar um þessi mál. Hann tekur sem dæmi að dagskrárgerð sem ríkismiðillinn hefur beitt sér fyrir sé fallin til þess að hræða líftóruna úr ungu fólki. 

Ástæðan fyrir því að hann gagnrýnir ríkisútvarpið sérstaklega eru fyrst og fremst þeir yfirburðir sem miðillinn hefur. Sigurður sem er fyrrverandi varaformaður Blaðamannafélags Íslands, auglýsir eftir meiri skynsemi og hófstilltari umræðu um loftslagsmál.

Í skrifum sínum á mbl hefur Sigurður mikið fjallað um rafmagnsbíla og hann segir að sú öra þróun sem þar hefur orðið hafi komið fólki á óvart. En það er fleira sem hefur komið á óvart. Hann nefnir skort á rafmagni á Íslandi, eftir að stór fyrirtæki tóku því ákalli að færa sig úr jarðefnaeldsneyti yfir í rafmagnið. 

Loks má nefna að gestur dagsins ræðir þann vilja sem nú er upp kominn í Evrópu að skilgreina kjarnorku og jarðgas sem græna orku. Kraftmikill þáttur um orkuskipti, loftslagsmál og hamfaraumræðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert