Átti að vera í einangrun og á nú von á kæru

Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglu til fjölmiðla.
Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglu til fjölmiðla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ökumaður bíls var stöðvaður í hverfi 104 í gærkvöld og kom það á daginn að viðkomandi átti að vera í einangrun vegna veirunnar. Í tilkynningu lögreglu segir að hann megi eiga von á kæru vegna brots á sóttvarnalögum.

Lögreglu var tilkynnt um líkamsárás í hverfi 105 í gær um kvöldmatarleitð og handtók einn sem er nú vistaður í fangaklefa vegna rannsóknarhagsmuna. Ekki er vitað um meiðsli þess sem fyrir árásinni varð. 

Annar maður var svo handtekinn í gærkvöld vegna líkamsárásar en þó einnig vegna þjófnaðar. Lögregla hafði hendur í hári mannsins í hverfi 104 og er hann vistaður í fangageymslu vegna rannsóknarhagsmuna. 

Þá var einnig tilkynnt um líkamsárásir í hverfum 109 og 221 í gærkvöld og nótt en ekki segir í tilkynningu lögreglu hvort nokkur hafi verið handtekinn vegna þessa. 

Svefndrukkinn maður gerði sig heimakominn í bílastæðahúsi í miðborginni í gær og um klukkan hálftíu hafði lögregla afskipti af honum. Hann neitaði þá umbeðinn að yfirgefa húsnæðið og reyndi að sparka til lögreglu. Hann var því handtekinn og færður í fangaklefa á meðan málið er rannsakað. 

Þá voru nokkrir ökumenn stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna, þar á meðal einn sem ók á 126 km/klst. þar sem hámarkshraði er 80 km/klst.

mbl.is