Dagur einn ber ábyrgðina

Hildur Björnsdóttir.
Hildur Björnsdóttir. mbl.is/Sigurður Bogi

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi sjálfstæðismanna, segir næg tilefni til að gagnrýna þéttingaráform meirihlutans í borginni og hve langt sé gengið á gróin hverfi. „Dagur [B. Eggertsson borgarstjóri] hefur sjálfur sagt að ein forsenda þéttingar sé að innviðirnir komi fyrst, svo íbúðabyggðin. Í Vesturbænum eru innviðirnir algerlega sprungnir, hvergi lengri biðlistar í leikskóla og frístund, Melaskóli er sprunginn, KR komið að mörkum, Hagaskóli og tveir leikskólar í hverfinu á vergangi vegna myglu [...] það er allt í upplausn og enginn grundvöllur fyrir frekari byggð.“

Hvað um Ægisíðumálið?

„Það er umhugsunarvert hvaða hagsmunir réðu för þegar þessi samningur var gerður. Maður spyr sig hvort hagsmunir Reykjavíkur og Reykvíkinga hafi verið hafðir að leiðarljósi. Hjá íbúum þarna í kring er mikill vilji fyrir því að þessi reitur þróist í að verða almannarými, leikskóli eða önnur aðstaða fyrir fólkið í hverfinu, en það virðist ekkert hafa verið hlustað eftir því.“

Borgarstjóri segir að allir flokkar hafi staðið að þessum áformum við Ægisíðu, er það rétt?

„Það var tekin ákvörðun í borgarráði um að reyna að fækka bensínstöðvum í borginni, það var þverpólitísk samstaða um það. En þegar kom að samningum við olíufélögin um útfærslur og annað, þá hélt borgarstjórinn málinu algerlega hjá sér, á sínu borði, og við höfðum enga aðkomu að. Manni sýnist sem hann hafi ekki haft hagsmuni borgaranna að leiðarljósi og hann ber einn ábyrgðina á þessum vandræðum.“

Hagsmuni hvers eða hverra þá?

„Ég held hann hafi aðallega haft það fyrir augum að geta trommað upp með einhverjar íbúðatölur í glærunum sínum, að þarna eigi að verða svo og svo mikil húsnæðisuppbygging. Það lýsir hins vegar miklu skilningsleysi á aðstæðum og þörfum hverfanna. Það á jafnt við þarna á Ægisíðunni eins og á Bústaðavegi.“

Hvernig finnst þér farið með eignir borgarsjóðs í þessu tilliti?

„Manni virðist sem olíufélögin hafi fengið góða samninga og borgarstjóri hafi nýtt málið til að stæra sig af húsnæðisuppbyggingu á tímum húsnæðisskorts. Minna hafi farið fyrir hagsmunum hverfanna, íbúanna og borgarinnar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »