Áhætta 85 ára þríbólusetts eins og 57 ára óbólusetts

Martin Ingi Sigurðsson þegar hann var við störfum í Rúanda …
Martin Ingi Sigurðsson þegar hann var við störfum í Rúanda fyrir nokkrum árum. Ljósmynd/Aðsend

„Við hljótum að hvetja fólk til að þiggja örvunarbólusetningu, þær virðast vera alveg einstaklega hjálplegar bæði gegn alvarlegum veikindum og fyrir því að lenda inni á gjörgæslu. Það held ég að sé eitthvað sem við þurfum að halda á lofti og hrósa fólki fyrir dugnaðinn að mæta í örvunarbólusetningu,“ segir Martin Ingi Sigurðsson, prófessor og yfirlæknir í svæfinga- og gjörgæslulækningum á Landspítala, í samtali við mbl.is.

Martin er hluti af rannsóknarhóp Landspítalans sem hefur unnið saman gegnum allan faraldurinn, þvert á sérgreinar. Martin birti niðurstöður rannsóknarinnar á facebook-síðu sinni en þær eru af þrennum toga.

Áhætta 85 ára með örvunarskammt sú sama og 57 ára óbólusetts

Í fyrsta lagi segir Martin að bólusetningarnar skipti sköpum og að gríðarlega mikil vernd sé í bóluefnum gegn alvarlegum veikindum og gegn því að leggjast inn, þannig sé áhætta 85 ára einstaklings sem hefur þegið örvunarskammt sú sama og 57 ára óbólusetts einstaklings. 

Stærsti áhættuþátturinn er aldur þannig að við kortleggjum þetta semsagt eftir aldri,“ segir Martin og bætir við: „Við sjáum í raun og veru frá 45 ára aldri að hóparnir aðgreina sig. Þeir sem eru bólusettir vs. þeir sem eru ekki bólusettir og sérstaklega virðist örvunarbólusetningarhópurinn vera mjög verndaður gegn því að leggjast inn.“

Niðurstöður 1.
Niðurstöður 1. Graf/Elías Eyþórsson

Minni líkur á að leggjast inn eftir Ómíkron

Í öðru lagi eru miklu minni líkur á að leggjast inn eftir þann tíma þegar Ómíkron-afbrigðið var orðið allsráðandi. Hópurinn hefur ekki ennþá fullan aðgang að gögnum um hvaða afbrigði hver einstaklingur hefur en þau vita þó að frá um það bil 15. des var Ómíkron algjörlega ráðandi í smitmynstrinu.

„Þannig að ef við berum saman þá sem lögðust inn fyrir og eftir 15. des og við skoðum þá hópa sérstaklega þá sjáum við að í öllum hópum, bæði aldurshópum og í mismunandi bólusetningarhópum að þá eru miklu minni líkur á að leggjast inn eftir þann tíma þegar Ómíkron er orðið algjörlega ráðandi. Það eru mjög góðar fréttir og kannski ríma við tilfinninguna sem maður hefur,“ segir Martin.

Niðurstöður 2.
Niðurstöður 2. Graf/Elías Eyþórsson

Staðan á gjörgæslu mjög breytt

Í þriðja lagi er staðan á gjörgæslu mjög breytt en hlutfall þeirra sem leggjast inn sem þarfnast gjörgæsluinnlagnar hefur lækkað verulega.

„Þetta er tilkomið bæði vegna bólusetningarstöðu þjóðfélagsins og markvissari og betri meðferðar á göngudeild og legudeildum, sem og tilkomu omicron-afbrigðisins,“ skrifar Martin. 

Niðurstöður 3.
Niðurstöður 3. Graf/Elías Eyþórsson

Martin skrifar á facebook að með þessi gögn að vopni leyfi hann sér að vera bjartsýnn og í samtali við mbl.is segist hann halda að nú séu aðrar áskoranir. Veruleikinn sé sá að við verðum með rosalega marga sem eru jákvæðir fyrir veirunni og erfitt sé að sinna fólki sem er jákvætt, einangra þurfi sjúklinga, vera í smitgát og bíða eftir sýnum og það sé mikið álag á heilbrigðiskerfið.

Hann bætir þó við að þegar maður sér að álag á gjörgæsludeildir fer minnkandi og þegar þeir sjúklingar sem þurftu að dvelja í tíu daga til tvær vikur á gjörgæslu vegna alvarlega lungnabólu tengda Covid-sjúkdómnum, hverfa, verði allt mikið viðráðanlegra.

Staðan á gjörgæslu er mjög breytt.
Staðan á gjörgæslu er mjög breytt. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

„Og það er akkúrat það sem maður vonar að gerist með tilkomu þessa Ómíkron-afbrigðis og vegna þess hversu vel bólusett þjóðin er orðin þá vonar maður að það verði niðurstaðan,“ segir Martin og bætir við:

„Maður fer að sjá fleiri og fleiri sjúklinga sem eru með Covid en ekki vegna Covid eins og er mikið byrjað að tala um núna,“

Frétt uppfærð 24. janúar kl. 18:33

Upphaflega stóð í fréttinni að enginn sjúklingur með örvunarskammt hafi þurft að leggjast inn á gjörgæslu á Íslandi. Hins vegar hefur fréttin nú verið leiðrétt þar sem að tveir einstaklingar lögðust inn á gjörgæslu með örvunarskammt, einn í byrjun nóvember og annar í byrjun desember. Báðir þó innan 14 daga frá því að þeir fengu örvunarskammtinn og þar af leiðandi falla þeir ekki undir skilgreiningu rannsóknarinnar á því hvað telst vera bólusetning með örvunarskammti.

Enginn sjúklingur með örvunarskammt hefur hins vegar þurft á gjörgæslu síðan að Ómíkron-afbrigðið varð ríkjandi 15. desember.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert