Fara verði í afléttingar

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir forsendur fyrir hertum sóttvarnatakmörkunum vera brostnar.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir forsendur fyrir hertum sóttvarnatakmörkunum vera brostnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir forsendur fyrir þeim sóttvarnareglum sem nú eru í gildi séu brostnar. Það verði að taka því alvarlega þegar forsendur fyrir skerðingu á frelsi fólks hafi breyst og því verði að fara í afléttingar á næstu vikum. 

„Eftir síðustu takmarkanir sögðu menn að við þyrftum að koma smitum í niður í um 500 á dag. Síðan kemur í ljós að við erum með tvöfalt fleiri smit og gott betur dag eftir dag en samt fer innlögnum fækkandi, örfáir eru á gjörgæslu og enginn sem hefur fengið örvunarskammt hefur lent á gjörgæslu,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is.

Langtum betri en bjartsýnustu spár

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, settur forstjóri Landspítala, sögðu í grein sem birt var á Vísi í dag að afléttingar væru fram undan. Unnið yrði með Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni að útfærslum. 

„Við erum með stöðu undanfarna daga sem er langtum betri en bjartsýnustu spár gerðu ráð fyrir. Eftir stendur að það er mikill mönnunarvandi á Landspítala og mikið álag á ákveðnum deildum og ég ekki betur en að ráðherra sé að leita ráða til að takast á við það,“ segir Bjarni. 

Hann segir allt þetta eiga að gefa okkur efni til þess að vinda ofan af síðustu ráðstöfunum hið minnsta.

„Því helstu forsendur fyrir því að grípa til hertra ráðstafana um miðjan mánuðinn eru ekki lengur til staðar,“ segir Bjarni. Spurður hvort hann telji það hafa verið mistök að grípa til hertra aðgerða segir hann svo ekki vera.

„Ég hef alltaf stutt það að fara varlega. En það eru mistök að bregðast ekki við þegar forsendurnar eru ekki til staðar. Það væru mistök að horfast ekki í augu við það að forsendur fyrir því að þrengja að atvinnufrelsi og persónufrelsi fólks í landinu eru ekki til staðar. Við verðum alltaf að taka það alvarlega þegar við þrengjum að frelsi fólks. Ef rökin sem við notuðum til að þrengja að frelsi fólks halda ekki lengur verðum við að bregðast við,“

Hlynntur því að gefa út aðgerðaáætlun

Bjarni segist vera hlynntur því að aðgerðaáætlun til afléttinga verði unnin og gefin út af stjórnvöldum, svo lengi sem menn treysti sér til að byggja forsendurnar á gögnum og því sem er fast í hendi. 

„Allar slíkar áætlanir eru ekki meitlaðar í stein og forsendur geta breyst. En satt best að segja mér finnst hafa verið skortur á því í faraldrinum að við gætum lýst veginn aðeins lengra fram á við,“ segir Bjarni. 

Í Færeyjum hefur slík afléttingaáætlun verið gefin út en þar er stefnt að því að létta á öllum takmörkunum fyrir 28. febrúar.

Hann segir áætlun vera sérstaklega mikilvæga upp á samstöðu í þjóðfélaginu að gera.

„Samstöðu um aðgerðir, svo öllum sé ljóst að hverju sé stefnt. Þannig að við séum öll saman í verkefni sem hlýtur að ganga út á það að sigrast á þessum faraldri.“

mbl.is

Bloggað um fréttina