Náðu á tind Aconcagua

Arnar og Sebastian í upphafi leiðangurs.
Arnar og Sebastian í upphafi leiðangurs.

Fjallgöngumaðurinn Arnar Hauksson og leiðsögumaður hans, Sebastian Garcia, náðu tindi Aconcagua-fjalls í Argentínu nú rétt í þessu. Fjallið Aconcagua er hæsta fjall í heimi utan Asíu. Arnar og Sebastian hófu síðustu atlögu sína að tindinum í gærmorgun og toppuðu fjallið klukkan 18.06 að íslenskum tíma.

Þetta var önnur atlaga þeirra en um síðustu helgi var veðurgluggi sem hélst ekki opinn nógu lengi til að klára verkefnið. Þeir þurftu þannig að bíða í heila viku til að takast á við tindinn. Tvær búðir eru á leiðinni áður en komið er á toppinn. Þeir náðu seinni búðunum fyrir topp um síðustu helgi. 

Leggja af stað heim í vikunni

Tolli Morthens leiðangursstjóri ætlaði með á toppinn en hélt kyrru fyrir í grunnbúðum vegna háfjallaveiki. Hann gerir ráð fyrir því að leiðangurinn komi niður í einum rykk frekar en að dvelja í millibúðum á leiðinni. Þeir leggja svo af stað aftur heim í vikunni. 

Leiðangurinn er farinn til að vegna athygli á starfsemi Batahúss, sem tók til starfa á síðasta ári, og safna um leið áheitum fyrir starfsemina. 

Batahús er einstaklingsmiðað bataúrræði við enda afplánunar þar sem einstaklingum er boðin heimilisaðstaða til allt að tveggja ára eða eftir atvikum til skemmri tíma. Unnið er með einstaklingum á jafningjagrundvelli út frá hugmyndum um áfallamiðaða nálgun. Báðir eru Tolli og Arnar í stjórn Batahúss.

Sollusjóður var stofnaður af Bata góðgerðarfélagi og er hlutverk hans að styrkja skjólstæðinga Batahúss með fjárhagslegum hætti til þess m.a. að sækja sér sérfræðiaðstoð hjá til að mynda sálfræðingum, fíknifræðingum og öðrum fagaðilum. Jafnframt styrkir Sollusjóður nám, námskeið, ýmis konar fræðslu og tannlæknakostnað svo eitthvað sé nefnt.

mbl.is