„Ráðum þokkalega vel við ástandið“

Staðan er viðráðanleg að sögn Guðlaugar, en það gerist þó …
Staðan er viðráðanleg að sögn Guðlaugar, en það gerist þó ekki af sjálfu sér. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum með spítalann á neyðarstigi og ráðum þokkalega vel við ástandið eins og staðan er núna, enda vorum við vel undirbúin. Þetta gerist ekki af sjálfu sér,“ segir Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir forstjóri Landspítala. 

Staðan á spítalanum bendir til þess að hægt sé að ráðast í afléttingar. 

Hver er leiðin út að þínu mati?

„Við sjáum í sjálfu sér að þótt smitin séu býsna mörg í samfélaginu þá hefur kannski svartsýnasta spá ekki ræst hvað varðar spítalann. Við erum í neðri vikmörkum, sem er mjög gott.“

Spítalinn ráði við ástandið nú eins og er og því hægt að fara í varfærnar afléttingar. 

200 starfsmenn í einangrun

„Nú verður að taka stöðuna í næstu viku með sóttvarnalækni og ræða um hvernig verður hægt að bæta stöðuna út frá mörgum hliðum. Ég geri ráð fyrir því að verði haldið áfram í næstu viku og við sjáum bara áfram hve næstu skref verða.“

Samstarf spítalans við aðrar stofnanir hafi gengið vel en eftir sem áður eru um 200 starfsmenn í einangrun – það hafi gríðarlega mikil áhrif og meðal annars þá á næstu skref.

Það leynir sér ekkert að sóttkvíin hefur áhrif á spítalann?

„Það er fyrst og fremst fjöldi starfsmanna í einangrun sem hefur áhrif og við köllum þá ekki inn. Því fleiri smit í samfélaginu, því líklegra er að starfsmenn Landspítalans smitist, því þeir eru partur af samfélaginu. Við erum með þetta mörg smit, þó við séum með þessar ströngu takmarkanir í samfélaginu. Ég veit ekki hvernig myndin myndi líta út ef við værum ekki með neinar takmarkanir.“

Segir næstu viku skera úr um framhaldið

Hún segist ekki sjá að neinn grundvöllur sé fyrir því að stytta einangrun.

En hvernig bregstu við ummælum sem Kári Stefánsson lét falla, þ.e. að það kæmi honum ekki á óvart ef sóttkví og einangrun yrði hreinlega aflétt, þar sem afstaða til afbrigðisins er að breytast?

„Það verður bara að koma í ljós. Næstu dagar og næsta vika skera úr um framhaldið.“

Sóttvarnalæknir og sérfræðingar verði að meta stöðuna eftir því sem fram vindur.

mbl.is