Það var maður að deyja fyrir framan nefið á mér!

Guðjón Hafsteinn Guðmundsson hefur marga fjöruna sopið um dagana.
Guðjón Hafsteinn Guðmundsson hefur marga fjöruna sopið um dagana.

„Við vorum út af Hornafirði síðdegis á sunnudegi þegar lítil flugvél brotlenti í sjónum fyrir framan okkur. Sjálfur var ég sofandi en skipstjórinn, Snæbjörn Össurarson, varð vitni að þessu. Um var að ræða bandarískan ferjuflugmann sem var á leið til Íslands frá Bandaríkjunum með millilendingu í Skotlandi. Eitthvað hefur hann misreiknað sig því vélin varð bensínlaus með þessum afleiðingum.“

Þannig lýsir Guðjón Hafsteinn Guðmundsson, sem var háseti á Vigra RE, atviki sem átti sér stað í mars 1984.

Guðjón var ræstur, eins og aðrir sem voru í koju, og þegar hann kom upp á dekk hafði flugmanninum tekist að komast út úr vélinni. Athygli vakti að hann var ekki í flotgalla, heldur bara í dúnúlpu. Hafði ekki komist í gallann og varð fljótt þrekaður í sjónum. Menn réðu ráðum sínum á dekkinu og öllum var ljóst að engan tíma mátti missa. Það voru suðvestan 6-7 vindstig og svolítil alda.

Hefði getað lent í soginu og farið í skrúfuna

„Maðurinn var svona 30-50 metra frá okkur og ekki auðvelt að komast að honum, þar sem skipið valt í öldunni. Hefðum við farið nær hefði hann getað lent í soginu og farið í skrúfuna. Við hentum niður kaðalstiga en engin leið var fyrir flugmanninn að komast í hann. Ég man að ég sagði við skipstjórann: Við erum að missa manninn, við verðum að ná í hann! „Hvernig?“ spurði hann á móti. Ég fer bara og sæki hann!

Það varð úr. Spotti var festur í Guðjón, sem stakk sér til sunds í svellköldum sjónum. „Þetta gerðist allt mjög hratt en þegar ég var búinn að stinga mér í sjóinn man ég eftir að hafa hugsað með mér: Jæja, Gaui minn. Þú hefur alltaf verið vitlaus en ég vissi ekki að þú værir svona vitlaus!“

Hann brosir.

Þess má geta að hann var bara í skyrtu og gallabuxum enda skipti hver sekúnda máli.

Guðjón komst til flugmannsins, sem þá var orðinn rænulítill og þrotinn að kröftum enda búinn að vera í alla vega 20 mínútur í sjónum. Hann tók utan um manninn og skipverjar á Vigra drógu þá í átt að skipinu. Heilmikill veltingur var á skipinu og Guðjón marðist á brjóstinu við atganginn þegar slaknaði á spottanum. Þegar komið var að skipinu var ekki nema hálfur sigur unninn; koma þurfti flugmanninum um borð. Og þeim báðum. „Þetta var alls ekki auðvelt en á endanum náði ég að koma löppunum á manninum í stigaleiðarann og þeir gátu kippt honum inn fyrir borðstokkinn og síðan mér. Til allrar hamingju var maðurinn frekar lítill og léttur; ég veit ekki hvort ég hefði ráðið við eitthvert tröll þarna. Ég þori ekki að hugsa þá hugsun til enda hefði ég misst takið á manninum.“

Harry W. Rhule þakkar Guðjóni lífgjöfina árið 1984.
Harry W. Rhule þakkar Guðjóni lífgjöfina árið 1984. Morgunblaðið/Friðþjófur


Mikil geðshræring

Strax var hlúð að flugmanninum á dekkinu og síðan farið með hann niður í klefa í steypibað og honum fengin ný og þurr föt. Hann hjarnaði fljótt við og varð ekki meint af volkinu. Sjálfur var Guðjón í mikilli geðshræringu þegar hann var kominn um borð aftur. „Ég bara grét og grét. Sjokkið var svo mikið. Bæði var það þessi andlega og líkamlega þrekraun sem ég hafði gengið í gegnum en ekki síður sú staðreynd að mér hafði tekist að bjarga manninum. Hann varð að vonum mjög þakklátur og skrifaði mér bréf sem ég er því miður búinn að týna. Synd og skömm. Flugmaðurinn hefur ábyggilega verið um sextugt á þessum tíma og ég veit að hann er látinn í dag. Hann hét Harry W. Rhule.“

Þeir tókust alveg á loft

– Hefurðu hugsað mikið um þessa mannbjörg gegnum tíðina?

Guðjón ásamt vinum sínum, Sveinbirni Birgissyni og Birgi Georgssyni.
Guðjón ásamt vinum sínum, Sveinbirni Birgissyni og Birgi Georgssyni.


„Nei, merkilega lítið. Ég hef heldur ekki verið nógu duglegur að tala um þetta. Ég áttaði mig á því þegar þetta barst fyrir tilviljun í tal á síðasta ári þegar við Biggi æskuvinur minn í Herrafataverslun Birgis og Sveinbjörn vinur okkar sátum saman að spjalli. Þeir tókust alveg á loft yfir þessu. „Hvers vegna hefurðu ekki sagt okkur frá þessu áður? Hvers vegna hefurðu ekki fengið fálkaorðuna? Þú ert alltof hógvær!“ Og þar fram eftir götunum. Niðurstaðan varð sú að Biggi útnefndi mig mann ársins hjá Herrafataverslun Birgis og leysti mig út með forláta jakkafötum. Út frá þessum viðbrögðum fór ég að velta því fyrir mér hvort að þetta væri kannski eitthvað meira og merkilega en ég hef haldið. Um það verða aðrir að dæma. Í mínum huga er þetta ósköp einfalt: Það var maður að deyja fyrir framan nefið á mér og ég reyndi að bjarga honum. Hver hefði ekki gert það?“

– Það er ekki víst að allir hefðu látið sig vaða í sjóinn á skyrtu og gallabuxum!

„Það má vel vera. Ég hef alltaf verið frekar kjarkaður. Og djarfur. Þó ekki beint til kvenna.“

Hann hlær.

Ítarlega er rætt við Guðjón í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins, meðal annars um slys þegar brotsjór tók hrygginn á honum í sundur á þremur stöðum. Hann sigldi ekki eftir það. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »