Rosalegur tvíverknaður

Sæunn Ingibjörg Marinósdóttir.
Sæunn Ingibjörg Marinósdóttir.

Sérstaka vottun þarf nú fyrir innflutning á lífrænum vörum frá Englandi og kaupa þarf slíka vottun hjá einkarekinni vottunarstofu, hyggist fyrirtæki í slíkum innflutningi halda því áfram. Á þessu hefur Sæunn Ingibjörg Marinósdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri Veganmatar ehf., vakið athygli. Fyrirtæki hennar rekur verslunina Veganbúðina í Faxafeni og veitingastaðinn Jömm í Kringlunni.

„Við sem innflytjandi eigum að fá lífræna vottun á innflutningsstarfsemina okkar. Við erum samt bara að flytja inn vörur sem eru þegar með lífræna vottun frá Evrópusambandinu,“ segir Sæunn í samtali við Morgunblaðið. „Hún er ekki tekin gild í Englandi nema við séum líka vottuð.“

Sæunn segir að flokka megi innflutningslönd í þrjá flokka; Evrópusambandslönd, jafngildislönd sem standa utan sambandsins en hafa samning við þau og svo önnur lönd sem þarf að votta. England falli nú í síðastnefnda flokkinn og sé því „treystandi til þess að selja réttmætar lífrænar vörur“, þrátt fyrir að hafa þegar gert samning við bæði ESB og EFTA. „Þannig að það er ennþá skráð sem þriðja land en hlýtur eiginlega að verða gert að jafngildislandi fyrr en síðar því samningurinn er orðinn gildur,“ segir Sæunn. Þrátt fyrir það þarf Veganmatur að greiða Túni, einkarekinni vottunarstofu, 400 þúsund krónur fyrir 1. febrúar vilji þau halda áfram að flytja inn lífrænar vörur frá Englandi.

Sæunn segir málið ekki aðeins snúast um upphæðina, sem er þó íþyngjandi fyrir lítið fyrirtæki, heldur einnig skjalavinnslu sem fylgir. Fyrirtækið þurfi nú að hafa tvö leyfi; eitt fyrir venjulegar vörur og annað fyrir lífrænar. „Allir ferlar hjá okkur verða tvöfaldir og við þurfum að vera með fleiri skráningar. Þetta er rosalegur tvíverknaður.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert