Segir skýra afléttingaráætlun mikilvæga

Halldóra Mogensen, formaður þingflokks Pírata.
Halldóra Mogensen, formaður þingflokks Pírata. Eggert Jóhannesson

Nú þegar útlit er fyrir að aflétta eigi neyðarstigi á Landspítala eru komnar forsendur til þess að aflétta sóttvarnaaðgerðum innanlands. Þetta segir Halldóra Mogensen, þingflokksmaður Pírata, í samtali við mbl.is.

„Það er klárlega kominn tími til þess að stíga þessi skref.“

Hún segir það þó mikilvægt að heilbrigðisráðherra kynni skýra afléttingaráætlun og geri vel grein fyrir því hvenær og hvernig sóttvarnaaðgerðum verði aflétt.

„Við höfum alveg talað um það frá upphafi að það hefðu þurft að vera skýrari sviðsmyndir og áætlanir. Þannig við gætum öll áttað okkur á því hvernig ríkisstjórnin væri að hugsa þetta og að það væri meiri fyrirsjáanleiki í því hvenær aðgerðir yrðu hertar og hvenær þeim yrði aflétt aftur.“

Innt eftir því segist Halldóra alveg skilja ákvörðun heilbrigðisráðherra um að herða sóttvarnaaðgerðir síðast til þess að vernda spítalann en spyr um leið hvort það hefði verið hægt að fara aðrar leiðir til þess.

„Land­spít­al­inn hefur verið á neyðarstigi og þegar spít­al­inn get­ur ekki tekið á móti sjúk­ling­um eða tryggt að þjón­ustu­stigið sé gott þá er það að sjálfsögðu mikið áhyggju­efni sem þarf að bregðast við. Það er bara spurn­ing hvort það hefði verið hægt að gera það ein­hvern veg­inn öðru­vísi en með því að herða sótt­varn­araðgerðir.“

Langtímaáhrif á andlega heilsu þjóðar óljós

Það sé nefnilega ljóst að þau höft sem þjóðin hefur búið við vegna faraldursins síðastliðin tvö ár hafi kostað mikið og ekki bara í peningum talið.

„Við eig­um al­ger­lega eft­ir að skoða hvaða keðju­verk­andi áhrif þessi höft hafa haft í gegn­um sam­fé­lagið. Hvernig and­leg líðan ungs fólks er sem hef­ur misst nán­ast tvö ár af fé­lags­lífi og eldra fólks sem hef­ur sömu­leiðis þurft að vera í ein­angr­un í lang­an tíma. Þetta er eitt­hvað sem við erum ekki einu sinni byrjuð að skoða.“

Því sé mögulega tilefni til þess að skoða aðrar leiðir til þess að styðja við heilbrigðiskerfið og þá sérstaklega Landspítalann, heldur en að herða sóttvarnaaðgerðir innanlands.

„Það sem vantað hefur er að skoða af einhverri alvöru hvort það hefði verið hægt að beita ein­hverri ann­arri taktík, td. tíma­bund­inni eða varanlegri lauka­hækk­un hjúkrunarfræðinga, til þess ein­mitt að laða fólk í þessi störf og til að sýna þakk­læti fyr­ir þær fórn­ir sem fólk á þess­um starfs­vett­vangi hef­ur fært á tím­um far­ald­urs­ins. Ég vil því meina að það hafi ekki verið sett nægi­lega mikið púður í að Land­spít­al­inn gæti starfað eðli­lega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert