Þorgerður fagnar áformum um afléttingar

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég fagna því að það eigi að fara í afléttingar og þótt fyrr hefði verið,“ segir Þorgerður Katrín, formaður Viðreisnar, innt viðbragða við ummælum heilbrigðisráðherra og forstjóra Landspítalans um að afléttingar á sóttvarnaaðgerðum séu í vændum innanlands.

„Miðað við allar þær tölur sem við blasa núna þá liggur alveg ljóst fyrir að það á að stíga þessi skref og helst strax.“

Þorgerður segir það þó koma sér á óvart að ríkisstjórnin skuli ekki hafa verið tilbúin með afléttingaráætlun um leið og þessar tölur lágu fyrir.

„Því það hefur verið mikið talað um m.a. frelsið og ég held að jafnvægi milli sóttvarna og frelsis sé kannski ekki alveg í lagi núna.“

Henni finnst hins vegar jákvætt að sjá Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Guðlaugu Rakeli Guðjónsdóttur, forstjóra Landspítalans reyna í sameiningu að útskýra stöðuna fyrir fólki og vísar þar í sameiginlegan skoðanapistil þeirra sem var birtur í gær. 

„Það hefur nefnilega vantað svolítið upp á það að fólk skilji. Ég held að flestir skynji það úti í samfélaginu að skilningsleysi hefur verið að aukast og það er m.a. vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki staðið sig í stykkinu að vera með nokkuð skýr plön.

Það eru liðin tvö ár af þessari veiru og það skildu það allir í upphafi að það þyrfti að bregðast hratt við. Allt þingið lagði fram um að ýta undir samstöðu og ganga hratt til verka en ég hélt að ríkisstjórnin væri þá líka að vinna að sínum sviðsmyndum, eins og hún sagðist ætla að gera í sumar, en það bólar ekkert á þeirri vinnu.“

Þá segir hún þjóðina og sóttvarnalækni hafa staðið sína pligt í faraldrinum en sakar ríkisstjórnina um að hafa sofnað á verðinum.

„Ábyrgð ríkisstjórnarinnar er að skoða heildarmyndina og síðustu misserin hefur henni ekki tekist vel upp með það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert