Vill aflétta öllu innanlands

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar segir að við getum ekki …
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar segir að við getum ekki haldið áfram að halda niðri í okkur andanum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er algjörlega sammála því að við eigum að aflétta öllu sem alla fyrst,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, en undanfarna daga hefur verið kallað eftir því að sóttvarnaaðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins verði aflétt.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í samtali við mbl.is í gærkvöldi að forsendur fyrir þeim sótt­varn­a­regl­um sem nú eru í gildi séu brostn­ar. Þá sagði Runólfur Pálsson, yfirmaður Covid-göngudeildar Landspítalans að leggja þyrfti fram aðgerðaáætl­un um aflétt­ing­ar og það ætti að vera sam­vinnu­verk­efni sótt­varna­lækn­is, Land­spít­ala og heilsu­gæsl­unn­ar auk fleiri aðila. 

Kári telur að það ætti að halda áfram að vakta landamærin til að byrja með vegna þess að þó að Ómíkron-afbrigðið valdi litlum sjúkdómi væri betra að hafa auga áfram með Delta.

„Við eigum bara ekki annan kost“

Spurður hvað hann eigi við með að aflétta öllu, hvort sóttkví sé innifalið í því öllu, er svarið skýrt:

„Ég meina að við eigum að aflétta sóttkví og meira að segja sleppa einangrun þeirra sem smitast,“ segir Kári. Hann myndi höndla veiruna innanlands eins og hverja aðra flensu.

Hann segir að nokkrar spurningar vakni en um 95% þeirra sem greinst hafa undanfarið eru með Ómíkron og hinir með Delta. Um leið og tökunum verði sleppt svona höfum við ekki lengur möguleika á að fylgjast með þróun þess afbrigðis, sem hann segir að geti verið illvígt.

„Við eigum bara ekki annan kost. Þetta er orðinn svo langur tími og við getum raunverulega ekki haldið áfram að halda niðri í okkur andanum. Við tökumst á við þetta og sjáum hvernig gengur,“ segir Kári og bætir við að ef illa gangi sé hægt að herða aftur.

„Við verðum að bregðast við gögnum og mér finnst gögnin segja okkur að nú sé tími til að sjá hvort við getum ekki lifað þokkalegu lífi án þess að nota sóttkví eða einangrun.“

mbl.is