Baráttukveðjur af loðnumiðunum

Hluti áhafnar Jóns Kjartanssonar SU 11 frá Eskifirði tilbúinn að …
Hluti áhafnar Jóns Kjartanssonar SU 11 frá Eskifirði tilbúinn að horfa á landsleik Íslands og Króatíu á EM í handbolta. Ljósmynd/Grétar Rögnvarsson

Hróp og góðar hugsanir í borðsalnum á Jóni Kjartanssyni SU 111 dugðu ekki til að Ísland næði stigi gegn liði Króatíu á EM í handbolta í gær. „Við gerðum það sem við gátum,“ sagði Grétar Rögnvarsson skipstjóri þegar rætt var við hann skömmu eftir leik. Dagurinn var skipulagður þannig að mannskapurinn gæti horft á leikinn á loðnumiðunum 60-70 austur af Langanesi. Sjálfsagt hefur stemningin verið svipuð um borð í öðrum skipum loðnuflotans, sem mörg hver voru á sömu slóðum í gær.

Allt klárt fyrir leik

Þegar fyrst var talað við Grétar í gærmorgun var verið að hífa trollið og svo átti að dæla aflanum í lestarnar. Allt átti að vera tilbúið klukkan hálfþrjú til að horfa á landsleik Íslands og Króatíu og allt gekk það eftir. Mannskapurinn var klár fyrir framan stóran sjónvarpsskjá áður en leikurinn hófst og menn létu vel í sér heyra. „Eftir þessa frábæru frammistöðu strákanna, sérstaklega á móti Frökkunum, kom ekki til greina að missa af leiknum,“ segir Grétar skipstjóri, sem hrósaði íslensku strákunum í hástert miðað við aðstæður.

Rysjótt veður hefur gert loðnuveiðar erfiðar undanfarið, en flesta daga hefur þó eitthvað verið hægt að vinna. Og handboltinn létt mönnum lundina. „Í nótt var bræla og bylur, en núna er komið fínt veður,“ sagði Grétar síðdegis.

Jón Kjartansson SU-111.
Jón Kjartansson SU-111. Ljósmynd/Eskja

Í holinu í gærmorgun reyndust vera um 380 tonn og ástæðulaust að kvarta, segir Grétar. Þeir á Jóni Kjartanssyni hafa landað rúmlega 12.400 tonnum á vertíðinni, sem hófst í desember. Alls hafa íslensku skipin komið með tæplega 190 þúsund tonn að landi samkvæmt yfirliti á vef Fiskistofu, en íslenskum skipum er heimilt að veiða alls 662 þúsund tonn.

Fram kemur á vef Síldarvinnslunnar að fiskimjölsverksmiðjur fyrirtækisins í Neskaupstað og á Seyðisfirði hafa samtals tekið á móti um 60.000 tonnum af loðnu frá því að veiðar hófust. Haft er eftir Jóni Gunnari Sigurjónssyni, yfirverkstjóra í fiskiðjuverinu í Neskaupstað, að búið sé að frysta 1.600 tonn af loðnu á vertíðinni. „Við frystum einungis í þrjá daga en löng hol, ótíð og áta í loðnunni hafa gert það að verkum að hún hefur ekki verið heppilegt hráefni til frystingar. Ég geri hins vegar ráð fyrir að frysting hefjist af krafti um mánaðamótin,“ segir Jón Gunnar.

Lítill afli Norðmanna

Fyrir hádegi í gær voru 28 norsk loðnuskip innan íslensku efnahagslögsögunnar og fjögur á leið til landsins. Auk þeirra voru 13 íslensk skip og tvö grænlensk á loðnuveiðum á norðausturmiðum, samkvæmt upplýsingum Landhelgisgæslunnar.

Varðskipið Þór var við eftirlit með loðnuveiðunum um helgina og samkvæmt upplýsingum frá áhöfn varðskipsins var rólegt hjá Norðmönnum á miðunum enda flestir þeirra í höfn eða í vari. Norðmenn mega aðeins veiða í loðnunót og fram til þessa hefur loðnan staðið of djúpt til að hægt væri að eiga við hana í nótina.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert