Fallist á endurupptöku máls Ragnars

Hæstiréttur Íslands hafði áður sakfellt Ragnar vegna skattalagabrota. Málið verður …
Hæstiréttur Íslands hafði áður sakfellt Ragnar vegna skattalagabrota. Málið verður nú endurupptekið eftir að MDE hafði dæmt ríkið brotlegt og Endurupptökudómur fallist á endurupptöku málsins. mbl.is/Oddur

Endurupptökudómur hefur fallist á endurupptöku skattamáls Ragnars Þórissonar, en hann var stofnandi vogunarsjóðsins Boreas Capital, sem var slitið árið 2013. Ragnar var fundinn sekur í Hæstarétti árið 2014 fyrir að hafa ekki talið fram 120 milljóna fjármagnstekjur árið 2007 og þannig komist hjá skattgreiðslu upp á tólf milljónir króna. Var hann dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi vegna málsins og til að greiða 21 milljón í sekt.

Ríkisskattstjóri hafði áður hækkað skattstofn Ragnar vegna málsins um 15 milljónir og greiddi Ragnar þá upphæð og skaut málinu ekki til yfirskattanefndar. Skattrannsóknarstjóri vísaði málinu hins vegar til lögreglu og var ákæra gefin út árið 2012 og féll héraðsdómur um mitt ár 2013 þar sem Ragnar var fundinn sekur og gert að greiða 24 milljónir. Hæstiréttur lækkaði þá upphæð hins vegar í 21 milljón eins og fyrr segir.

Ragnar kærði málið til Mannréttindadómstóls Evrópu sem dæmdi að ríkið hefði brotið á honum þar sem hann hafi sætt lögsókn eða refsingu að nýju fyrir sama brot og honum hafi áður verið refsað fyrir.

Líkt og í máli Bjarna Ármannssonar og svo í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar, sem Endurupptökudómur hefur einnig fallist á að eigi að endurupptaka, byggir Ragnar á niðurstöðu MDE og að ný lög um dómstóla frá árinu 2020 heimili endurupptöku þegar um nýjar upplýsingar sé að ræða, en ekki bara ný gögn. Taldi hann dóm MDE vera nýjar upplýsingar.

Tekur Endurupptökudómur undir röksemdir Ragnar og vísar meðal annars í mál Jóns Ásgeirs og Tryggva.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert