Fólk á pólitíska jaðrinum líklegast til að trúa samsæriskenningum

„Svarendur á sitt hvorum jaðri hins pólitíska áss létu í …
„Svarendur á sitt hvorum jaðri hins pólitíska áss létu í ljós greinilegri trú á það að heiminum sé stjórnað af leynilegum öflum sem starfa í skjóli myrkurs,” segja höfundar rannsóknarinnar í Nature Human Behavior. AFP

Fylgni er á mili þess að trúa á samsæriskenningar og skilgreina sig á jöðrum hins pólitíska áss, ekki síst yst á hægri vængnum. Þetta sýna heildarniðurstöður yfirgripsmikillar rannsóknar í 26 löndum á viðhorfi fólks til samsæriskenninga og samspili þess við pólitískar skoðanir. Sagt er frá niðurstöðunum í vísindagrein sem birtist í tímaritinu Nature Human Behavior á dögunum en meðal höfunda hennar er Hulda Þórisdóttir, dósent í stjórnmálasálfræði við Háskóla Íslands.

Hulda Þórisdóttir, dósent í stjórnmálasálfræði við HÍ.
Hulda Þórisdóttir, dósent í stjórnmálasálfræði við HÍ. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Þetta kemur fram í tilkynningu frá HÍ.

„Samsæriskenningar eru sannarlega ekki nýtt fyrirbæri því þær hafa gengið á milli manna frá aldaöðli innan allra menningarheima og afkima heimsins. Slíkar kenningar spretta oftar en ekki upp í kringum sögulega viðburði en nærtæk dæmi eru hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september 2001, forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 2020 og síðast ekki síst kórónuveirufaraldurinn. Að baki samsæriskenningum liggur alla jafna sú hugmynd að dulin, ill öfl séu að verki sem stjórni framvindu atburða og standi í baktjaldamakki gegn afmörkuðum hópum eða jafnvel allri heimsbyggðinni.

Slíkt hugarfar kalla höfundar rannsóknarinnar samsærishugarfar (e. conspiracy mentality) og benda á að stjórnmálin séu sérlega frjór jarðvegur til þess að breiða út slíkt hugafar. Samsæriskenningar séu til að mynda órjúfanlegur hluti af ögrandi orðræðu popúlískra stjórnmálamanna.

Rannsóknarhópurinn, sem er fjölþjóðlegur, ákvað því að kanna hvort það væru möguleg tengsl á milli stjórnmálaskoðana fólks og afstöðu þess til samsæriskenninga. Jafnframt var ætlunin að kanna hvort upplifun fólks á skorti á pólitískum áhrifum, t.d. ef stjórnmálaflokkurinn sem það kaus hefði ekki komist í ríkisstjórn, hefði áhrif á samband stjórnmálaskoðana og samsærishugarfars,“ segir í tilkynningu HÍ

Hundrað þúsund þátttakendur í 26 löndum

Þá segir, að í rannsókninni hafi veirð byggt á tveimur spurningakönnunum sem náðu samtals til 100 þúsund manna í 26 löndum, flestum í Evrópu. Stuðst hafi verið við staðlaðan spurningalista sem snerti samsærishugarfar og pólitískar skoðanir þátttakenda hafi verið metnar út frá tveimur aðferðum. Annars vegar hafi þátttakendur verið beðnir um að staðsetja sig á hinum pólitíska ás frá hægri til vinstri og hins vegar hafi þeir verið spurðir út í það hvaða flokk þeim litist best á í heimalandi sínu, en alþjóðlegur sérfræðingahópur raðaði stjórnmálaflokkunum á hinn pólitíska ás.

Að baki samsæriskenningum liggur alla jafna sú hugmynd að dulin, …
Að baki samsæriskenningum liggur alla jafna sú hugmynd að dulin, ill öfl séu að verki sem stjórni framvindu atburða og standi í baktjaldamakki gegn afmörkuðum hópum eða jafnvel allri heimsbyggðinni. AFP

Ísland var meðal þátttökulanda og Hulda Þórisdóttir hafði umsjón með íslenska hluta rannsóknarinnar. Hún hefur sjálf rannsakað samsæriskenningar og er meðal höfunda bókar um samsæriskenningar og Norðurlöndin sem kom út í fyrra á vegum forlagsins Routledge.

Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að fylgni er á milli stjórnmálaskoðana fólks og tilhneigingar þess til þess að trúa á samsæriskenningar. „Svarendur á sitt hvorum jaðri hins pólitíska áss létu í ljós greinilegri trú á það að heiminum sé stjórnað af leynilegum öflum sem starfa í skjóli myrkurs,” segja höfundar rannsóknarinnar í Nature Human Behavior. Þeir benda einnig á að samsærishugafar sé sérlega áberandi hjá stuðningsmönnum flokka á hægri vængnum, ekki síst þeim sem styðja hefðbundna þjóðernissinnaða flokka og valdboðsflokka, að því er segir í umfjöllun HÍ.

Vinstrisinnar á Íslandi líklegri til að trúa samsæriskenningum

Þá kemur fram, að athyglisverður munur hafi einnig reynst vera á löndum í þessu tilliti og að Íslandi hafi skorið sig úr fyrir það að hér tengdist samsærishugarfar sterkast vinstrisinnaðri stjórnmálaafstöðu þótt vissulega kæmu fram vísbendingar um tengsl við báða jaðra. Að þessu leyti átti Ísland meira sammerkt með löndum sunnar í Evrópu eins og Rúmeníu, Spáni og Ungverjalandi, þar sem trúin á samsæriskenningar reyndist sterkari meðal þeirra sem voru yst á vinstri vængnum, að því er HÍ greinir frá

Í löndum Mið- og Vestur-Evrópu, eins og Belgíu, Þýskalandi, Frakklandi, Hollandi, Austurríki, Póllandi og Svíþjóð sýndu stuðningsmenn hægriflokka meiri tilhneigingu til að trúa samsæriskenningum. Á heildina litið mældist samsærishugarfar hins vegar fremur lágt hér á landi.

Fram kemur, að það sé mögulegt að þeir kjósendur sem …
Fram kemur, að það sé mögulegt að þeir kjósendur sem tilheyri tapliði í kosningum séu líklegri til að trúa á samsæriskenningar vegna tapsins en einnig sé vel hugsanlegt að flokkar sem standa utan meginstraums stjórnmálanna og séu þannig ólíklegir til afreka í kosningum höfði meira til þeirra sem aðhyllast samsæriskenningar, mbl.is/Unnur Karen

Ennfremur segir, að niðurstöður rannsóknarinnar hafi einnig sýnt fram á að einstaklingar sem fylgi valdalausum flokkum að málum séu líklegri til þess að trúa samsæriskenningum. Þeir upplifi því pólitísk áhrif sín engin. Þetta sé sérstaklega áberandi hjá einstaklingum sem styðji flokka yst á hægri vængnum, segja rannsakendurnir. Niðurstöður þeirra sýndu jafnframt að tilhneiging til að trúa samsæriskenningum var meiri hjá fólki með litla menntun en öðrum hópum samfélagsins.

„Höfundar rannsóknarinnar undirstrika að niðurstöður rannsóknarinnar segi ekkert um orsök og afleiðingu í þessum efnum. Mögulegt sé að þeir kjósendur sem tilheyri tapliði í kosningum séu líklegri til að trúa á samsæriskenningar vegna tapsins en einnig sé vel hugsanlegt að flokkar sem standa utan meginstraums stjórnmálanna og séu þannig ólíklegir til afreka í kosningum höfði meira til þeirra sem aðhyllast samsæriskenningar,“ segir ennfremur. 

Greinina „Conspiracy Mentality and Political Orientation across 26 countries“ í Nature Human Behavior má nálgast á vef tímaritsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert