Liðsinni lýkur við Landspítala

Klíníkin. Það hefur verið rólegra í Ármúlanum en endranær síðustu …
Klíníkin. Það hefur verið rólegra í Ármúlanum en endranær síðustu þrjár vikur.

Liðsinni Klíníkurinnar við Landspítalann lýkur í lok þessarar viku. Samstarfið gekk vel fyrir sig en vegna gangs faraldursins reyndi minna á það en óttast var.

Að sögn Sigurðar Ingibergs Björnssonar framkvæmdastjóra Klíníkurinnar þróaðist faraldurinn með öðrum hætti en svartsýnisspár gerðu ráð fyrir. „Það var nóg að gera hjá okkar fólki á legudeild, en hins vegar var til allrar hamingju minna um að vera á gjörgæslu.“

Í upphafi árs lokaði Klíníkin skurðstofustarfsemi í þrjár vikur og fóru um 20 starfsmenn þaðan á Landspítala til þess að hlaupa undir bagga. Mannekla var á spítalanum vegna smita og óttast að sjúklingum kynni að fjölga mjög.

„Álagið varð einfaldlega annað en gert var ráð fyrir, enda var þá lítið vitað um þetta nýja ómíkron-
afbrigði. Það gátum við ekki séð fyrir og nú er álagið að minnka talsvert, svo þetta lítur ágætlega út.“

Upphaflega var miðað við að liðsinnið stæði í þrjár vikur, en að sögn Sigurðar verður það ekki framlengt, það sé óþarfi eins og staðan er.

Hann segir að einnig þurfi Klíníkin að sinna sínum eigin sjúklingum; fresta hafi þurft liðlega tvö hundruð aðgerðum með tilheyrandi röskun, sem nú þurfi að vinda ofan af.

„Þetta spilaðist öðru vísi en gert var ráð fyrir og ekki hægt að vera óánægður með það,“ segir Sigurður um hvernig faraldrinum vatt fram síðustu vikur. „Sú þróun kann að ýta undir að sóttvarnaráðstafanir verði endurskoðaðar, en það eru sjálfsagt aðrir betur til þess fallnir að fjalla um það en við.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »