Lögregla önnum kafin vegna ölvunaraksturs

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tveir menn voru handteknir í gærkvöldi í hverfi 101 grunaðir um vörslu fíkniefna. Lagt var hald á það sem talið var vera fíkniefni og tekin skýrsla af mönnunum tveimur. Þeim var síðan sleppt. Bifreiðin sem mennirnir óku þegar lögregla hafði afskipti af þeim var ótryggð og voru skráningarnúmer hennar því klippt af.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Tilkynnt var um umferðarslys og bílveltu á Bústaðavegi í gærkvöldi. Ekki urðu slys á fólki en ökumaður bílsins var handtekinn vegna gruns um ölvunarakstur. Sýni var tekið úr manninum og að því loknu gisti hann fangageymslu vegna rannsóknarhagsmuna. Skemmdir urðu á götuvita vegna slyssins og fjarlægði Krókur bílinn af vettvangi.

Einnig var tilkynnt um umferðaróhapp á Kringlumýrarbraut í gærkvöldi. Þar ók bifreið aftan á aðra og kvartaði tjónþoli undan verk í kálfa og höfði. Hann fór sjálfur á bráðamóttöku en ökumaður hins bílsins var handtekinn á vettvangi vegna gruns um ölvunarakstur. Hann mátti gista í fangaklefa í nótt vegna rannsóknarhagsmuna. Bifreiðarnar tvær voru fluttar af vettvangi af Króki.

Laust eftir miðnætti í gær var lögregla kölluð til vegna þess að vagnstjóri Strætó átti í erfiðleikum með ölvaðan farþega. Lögregla aðstoðaði manninn og kom honum á gististað sinn.

Þá var tilkynnt um umferðaróhapp við Nýbýlaveg í gærkvöldi eftir að ökumaður hafði ekið á ljósastaur og þaðan burt af vettvangi. Orkuveitunni var gert viðvart vegna hættu sem skapaðist við staurinn.

Loks voru afskipti höfð af konu í íbúð í Hafnarfirði vegna mikillar fíkniefnalyktar sem þaðan kom. Hún afhenti lögreglu fíkniefnin og var skýrsla tekin af henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert