Birta samskipti Kára og Katrínar

Katrín Jakobsdóttir og Kári Stefánsson.
Katrín Jakobsdóttir og Kári Stefánsson. mbl.is/samsett mynd

Bréfasamskipti Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreinarinnar, voru birt í fullri lengd á vef stjórnarráðsins í dag. Samskiptin fjalla um þrjú mál sem Persónuvernd tók fyrir um vinnslu heilbrigðisupplýsinga í heimsfaraldri kórónuveiru. 

Persónuvernd skoðaði þrjú mál og komst í einu máli að þeirri niðurstöðu að vinnsla per­sónu­upp­lýs­inga í sam­starfi land­spít­al­ans og Íslenskr­ar erfðagrein­ing­ar á tímum heimsfaraldurs hafi ekki verið í sam­ræmi við gild­andi regl­ur um per­sónu­vernd. Var þar um að ræða svokallað blóðsýnamál. Þá var í tveimur öðrum málum, þar sem embætt­is land­lækn­is var einnig hluti að máli, komist að þeirri niðurstöðu að vinnslusamningur hafi ekki að öllu leyti verið í samræmi við löggjöf eða að mat á áhrifum á persónuvernd hafi ekki fullnægt kröfum persónuverndarlaga að fullu. Í þeim tveimur málum hafi þó í meginatriðum verið farið að lögum.

Persónuvernd að skipa sóttvarnalækni fyrir

Kári sendi út opið bréf til ríkisstjórnarinnar þann 20. desember þar sem hann sagði það „furðulegt að [Persónuvernd] skuli telja sig í aðstöðu til þess að segja sóttvarnarlækni að það sem hann telji að þjóni vörnum gegn farsóttinni sem nú gengur yfir landið geri það ekki.“

Hann minnti á að Íslensk erfðagreining hafi unnið nótt við nýtan dag við að aðstoða sóttvarnayfirvöld en þyrftu nú að una ákvörðun stjórnvalds sem sagði að með því hafi fyrirtækið verið að fremja glæp.

Katrín Jakobsdóttir svaraði þessu bréfi Kára þar þann 30. desember. Hún byrjaði á því að segja að Íslenskri erfðagreiningu yrði seint fullþakkað fyrir framlag fyrirtækisins í baráttunni við kórónuveiruna og þeirri aðstoð sem fyrirtækið veitti stjórnvöldum. 

Í lokum bréfsins minnti Katrín þó á að hendur ráðherra væru bundnar gagnvart sjálfstæðum stofunum á borð við Persónuvernd en sagði það „aftur á móti hlutverk dómstóla að leggja mat á réttmæti einstakra úrlausna og hvort stofnanir fari út fyrir verksvið sitt.“

Bréfið vonbrigði

Kári svaraði þessu bréfi þann 4. janúar og sagðist hafa verið vonbirgðum með bréfið.

„Ég hélt að ég væri að lesa stuðningsyfirlýsingu frá þér, en ég var það ekki. Það er engan stuðning að finna í því bréfi, alls engan. Í símtali okkar barstu fyrir þig skoðanir lögfræðinga ráðuneytisins sem gerðu ríkisstjórninni erfitt um vik að styðja okkur, sem er furðulegt vegna þess að við vorum ekki að fara þess á leit við ríkisstjórnina að hafa áhrif á ákvörðun Persónuverndar í krafti valds síns, heldur einungis að tjá skoðun á ákvörðun Persónuverndar.“

Kári hafði ætlast til þess að ríkisstjórnin myndi styðja Íslenska erfðagreiningu á meðan fyrirtækið leitaði réttar síns fyrir dómstólum en svo var ekki. Því sagðist Kári ætla að hætta öllum stuðning við heilbrigðiskrefið, bæði að því er varðar sóttvarnir og annað.

„Við litum svo á að það væru forréttindi að fá að hjálpa til við sóttvarnir þangað til Persónuvernd tók þá ákvörðun að við hefðum einfaldlega verið að brjóta lög sem er ákvörðun sem ríkisstjórnin veitir nú þegjandi samþykki sitt,“ segir Kári í niðurlagi bréfsins og sendir Katrínu svo nýárskveðju.

Degi síðar svaraði Katrín og vildi árétta það að úrskurðurinn hefði komið henni á óvart. 

„Ég er sammála því mati sóttvarnalæknis að umrædd rannsókn og vinnsla persónuupplýsinga (blóðsýnatakan) hafi verið hluti af opinberum sóttvarnaráðstöfunum, enda var hún unnin að beiðni sóttvarnalæknis og með landspítalanum. Rannsóknina ber að skoða í ljósi aðstæðna í samfélaginu á þessum tíma þar sem unnið var í kapphlaupi við tímann til að afla frekari gagna og upplýsinga um veiruna og afleiðingar hennar sem voru síðan undirstaðan fyrir alla ákvarðanatöku um opinberar sóttvarnaráðstafanir,“ sagði Katrín. 

Uppfært 27.01: Í upphaflegri frétt sagði að Persónuvernd hefði komist að þeirri niðurstöðu að vinnsla persónuupplýsinga hafi ekki verið í samræmi við gildandi reglur um persónuvernd í öllum þremur málunum. Hið rétt er að það átti við eitt mál og í hinum tveimur voru gerðar athugasemdir. Hefur fréttin verið uppfærð samkvæmt þessu.

mbl.is