Fallegur laumufarþegi flögraði um með látum

Trjáholubý. Endrum og sinnum bera ferðamenn með sér slíkan farangur.
Trjáholubý. Endrum og sinnum bera ferðamenn með sér slíkan farangur. Ljósmynd/Erling Ólafsson

Býfluga sem á ensku kallast Carpenter Bee barst Erling Ólafssyni skordýrafræðingi nýverið. Hún mun ekki áður hafa verið greind hér á landi, en Erling hefur gefið henni heitið trjáholubý.

Frá þessu greinir hann á facebooksíðunni heimur smádýranna og segir þar að það gerist af og til að íslenskir ferðamenn til sólríkra landa beri með sér óværu og laumufarþega við heimkomu. „Að Covid-veiru undanskilinni eru ódælar veggjalýs og kakkalakkar góð dæmi um óværu,“ skrifar Erling.

Borist með trjáflutningum

„Aðrir laumufarþegar eru af ýmsu tagi, oftar en ekki skaðleysisgrey þótt sumir séu stærri og sprækari en okkur viðkvæmu mörlöndunum hæfir. Einn slíkur var mér færður fyrir skömmu þegar ferðalangur rétt nýlentur úr spænskri sól drap á dyr hjá mér með box í hendi. Þegar pakkað hafði verið upp úr töskum fór hin glæsilegasta býfluga að flögra um með látum!

Ekki einungis var hún gríðarstór, búkmikil og loðin heldur einnig gríðarfalleg, biksvört með fagurgulan frambol og svarta vængi. Þarna var tegund sem ég hafði ekki áður séð. Komst þó fljótlega að því að um væri að ræða býflugu sem á ensku kallast Carpenter Bee. Af slíkum eru margar tegundir í heitari löndum heims, tegundir sem með sterkum kjálkum grafa ganga inn í trjáboli og gera sér þar bú. Eftir frekara grúsk komst ég að þeirri niðurstöðu að um væri að ræða tegundina Xylocopa pubescens sem ég ákvað að kalla trjáholubý,“ skrifar Erling.

Tegundin lifir í Norður-Afríku og þaðan austur í Asíu. Á seinni árum hefur tegundin borist með trjáflutningum til Grikklands, Spánar og Kanaríeyja og náð þar fótfestu. Lengd eintaksins, sem Erling fékk afhent var um 2,5 sm.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert