Icelandair mun breyta verklagi sínu

Icelandair mun funda með Flugfreyjufélagi Íslands á næstu dögum til að ræða nýlegan dóm Félagsdóms um uppsagnir og afturköllun þeirra í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Þá mun félagið breyta verklagi sínu í framtíðinni. Þetta kemur fram í svari félagsins við fyrirspurn mbl.is.

Um 900 flug­freyj­um var sagt upp störf­um í apríl 2020 í kjöl­far far­ald­urs­ins og end­ur­skipu­lagn­ing­ar hjá Icelanda­ir. Sum­arið sama ár, þegar lín­ur tóku að skýr­ast í flug­geir­an­um var síðan 201 flug­freyja ráðin á nýj­an leik og fór flug­fé­lagið ekki eft­ir starfs­aldri. Niðurstaða Fé­lags­dóms, sem er end­an­leg, var að fé­lag­inu hafi verið skylt að aft­ur­kalla upp­sagn­irn­ar eft­ir starfs­aldri. Fé­lags­dóm­ur féllst á kröf­ur FÍ og var Icelanda­ir gert að greiða ASÍ 800 þúsund í máls­kostnað.

Í svari Icelandair við fyrirspurn mbl.is segir að mikilvægt hafi verið fá úrskurð félagsdóms um „þetta vafaatriði í kjarasamningi milli Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair,“ eins og það er orðað.

„Í þessu máli var um að ræða mismunandi túlkun á kjarasamningi milli aðila um það hvort um endurráðningar eða afturköllun uppsagna hafi verið að ræða eftir hópuppsögn flugfreyja og flugþjóna í apríl 2020. Aldrei hafði reynt á sambærilegt álitaefni enda var um að ræða aðgerðir sem áttu sér stað við fordæmalausar aðstæður í miðjum heimsfaraldri. Fram kemur í kjarasamningi að við hópuppsagnir skuli farið eftir starfsaldri og var það gert þegar uppsagnir voru framkvæmdar. Hins vegar kemur ekki fram í kjarasamningi að fara skuli að með sama hætti við ráðningar. Niðurstaða Félagsdóms var að ekki hafi verið um endurráðningar að ræða heldur afturköllun á uppsögnum þar sem uppsagnarfrestur var ekki liðinn og við afturköllun uppsagna við þessar aðstæður ætti starfsaldur að ráða för,“ segir í svarinu.

„Félagið mun að sjálfsögðu breyta verklagi komi aftur til hópuppsagna í framtíðinni í samræmi við þessa niðurstöðu. Þá mun félagið eiga fund með Flugfreyjufélagi Íslands á næstu dögum til að ræða dóminn og áhrif hans,“ segir þar ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert