Reyndi að stela plastpokum úr búð

Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglu til fjölmiðla.
Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglu til fjölmiðla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tilkynnt var um hnupl úr verslun í hverfi 101 klukkan hálfellefu í gær. Í ljós kom að maður, sem lögregla hafði síðan afskipti af, hafði stolið búnti af pokum að verðmæti 680 krónur. Vettvangsskýrsla var rituð um málið.

Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu til fjölmiðla.

Öllu alvarlegra er að sex sinnum í gærkvöldi og nótt hafði lögregla afskipti af ökumönnum sem grunaðir voru um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Í hverfi 108 var maður handtekinn vegna slíkrar háttsemi. Einnig var það gert í hverfi 104 í gærkvöldi og reyndist sá ökumaður hafa stolið skráningarnúmerum af annarri bifreið og sett á þá sem hann ók. Hann játaði þjófnaðinn aðspurður.

Í hverfi 105 lék grunur á að ökumaður væri undir áhrifum fíkniefna og til að bæta gráu ofan á svart átti hann að vera í einangrun vegna Covid-19. Manninum var ekið á einangrunarstað sinn.

Þá var tilkynnt um slys á hjólabrettasvæði í Hafnarfirði í gærkvöld. Ungur drengur féll af bretti sínu og bar hendurnar fyrir sig með þeim afleiðingum að aflögun varð á hendi við úlnlið. Hann var fluttur á bráðamóttöku þar sem móðir hans hitti hann fyrir.

mbl.is