Skólastarf gekk vel með nýjum reglum

Jón Pétur Zimsen, fyrrverandi skólastjóri Réttarholtsskóla, og núverandi skólastjóri Melaskóla.
Jón Pétur Zimsen, fyrrverandi skólastjóri Réttarholtsskóla, og núverandi skólastjóri Melaskóla. mbl.is/Valli

Jón Pétur Zimsen, skólastjóri Melaskóla, segir nokkra fjölgun hafa orðið á nemendum og starfsfólki í dag eftir að nýjar reglur um sóttkví og smitgát í skólum tóku gildi á miðnætti í nótt.

Hann segir viðbótarálagið samt sem áður alveg viðráðanlegt:

„Í gegnum tíðina hefur starfsfólk verið að koma inn og út úr einangrun og sóttkví. Núna komu nokkru fleiri en á venjulegum degi, svo var einn heill bekkur sem var í sóttkví vegna utanaðkomandi sem kom allur inn í dag.“

Sumir óttaslegnir vegna reglubreytingarinnar

Jón Pétur segir fólk mishrætt við þá sem koma inn beint úr sóttkví: „Sumir eru alls óhræddir, sumir búnir að fá Covid, sumir þríbólusettir, aðrir minna. Öðrum finnst þetta mjög óþægilegt og við reynum að taka tillit til þeirra eins og við getum.“

Breytingin kemur ekki til með að breyta hólfaskiptingu innan skólans.

„Hér er mikil bekkjarkennsla þannig að okkur gengur bara ágætlega með það. Það er samt sem áður, hólfunin var kannski upp á að færri færu í sóttkví sem er útrýmt núna. Hólfunin kann hins vegar að dreifa smitum hægar.“

Sér fram á lokaða skóla vegna smita

Sóttvarnalæknir sagði í gær að hann gerði ráð fyrir því að mikill fjöldi barna á skólaaldri og starfsmenn þeirra myndu smitast vegna breytingarinnar. Jón Pétur segist treysta því að ákvörðunin sé tekin á góðum forsendum.

„Menn meta það greinilega að sóttkvíin hafi ekki virkað sem skyldi og það sé meiri hagur af því að hafa hana ekki og kostnaðurinn af fleiri smitum meðal nemenda og starfsmanna skólanna sé ásættanlegur,“ segir Jón Pétur.

„Ég held að það verði bara bullandi smit einhversstaðar og skólar loki en ég held það sé bara eitthvað sem menn eru tilbúnir fyrir að menn axli þá ábyrgð, þannig er það bara.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert