Spurði hvort hætta þyrfti við afhendinguna

Guðni Th. Jóhannesson afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum …
Guðni Th. Jóhannesson afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Framkvæmdastjóri Félags íslenskra bókaútgefenda segist hafa fengið þær upplýsingar frá RÚV að til staðar væri undanþága frá almennum sóttvarnareglum vegna útsendinga frá athöfnum á borð við afhendingu Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Verðlaunin voru afhent á Bessastöðum í gær og var sýnt beint frá afhendingunni á RÚV. Vakti það nokkra athygli að fjöldi gesta í salnum virtist vera yfir leyfilegum hámarksfjölda, miðað við núgildandi samkomutakmarkanir, og að fáir voru með grímur.

Fjöldi í rýminu fór aldrei yfir 30 manns

Benedikt Kristjánsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bókaútgefenda, segir í samtali við mbl.is að hann hafi spurst fyrir um það hjá RÚV hvort hætta þyrfti við afhendinguna vegna samkomutakmarkana. Hann hafi þá fengið þau svör að RÚV hefði leyfi fyrir 40 manns á slíkum athöfnum.

„Þar með væri talið fólkið þeirra, sem voru sex, starfsfólk forsetaskrifstofunnar sem voru sex og síðan bjóðum við eingöngu verðlaunahafa, tveimur aðstandendum hans og einum frá útgefandanum hans og svo dómnefndinni,“ segir Benedikt. Til viðbótar voru forsetahjónin að sjálfsögðu viðstödd og tvær tónlistarkonur sem fluttu tónlistaratriði á athöfninni.

Benedikt segir að 21 sæti hafi verið í salnum og að setið hafi verið í 20 þeirra. Tæplega einn og hálfur metri hafi verið á milli stóla og þeim hafi verið raðað á ská. Fjöldi fólks í rýminu hafi aldrei farið yfir 30 manns.

Þá segir hann grímuskyldu hafa verið á athöfninni. „Það var grímuskylda og við eigum myndir af því þegar fólk var að koma en eftir að fólk var sest þá voru mjög margir sem tóku af sér grímuna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert