Tveimur númerum of stór

Feðgarnir urðu Íslandsmeistarar með Fram í 4. flokki 2015.
Feðgarnir urðu Íslandsmeistarar með Fram í 4. flokki 2015.

Landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson hefur farið á kostum á EM í handbolta í Búdapest í Ungverjalandi að undanförnu. Sem barn og unglingur var hann alltaf með handboltann í öðru sæti og ætlaði sér að ná langt í fótboltanum en snerist hugur fyrir nokkrum árum.

Markvarslan er sterkasta tenging Hallgríms Jónassonar, íþróttakennara og föður Viktors Gísla, við handboltann. Hallgrímur var á fullu í fótboltanum þegar smalað var í handboltalið til að taka þátt í hverfamóti Junior Chamber á áttunda áratugnum. „Við unnum mótið örugglega, sáum að þetta var eitthvað fyrir okkur vinina og byrjuðum margir að æfa handbolta,“ rifjar hann upp. Hallgrímur ólst upp hjá ÍR og var markvörður meistaraflokks 1987 til 1992 eftir að hafa spilað með yngri flokkum félagsins og unglingalandsliðum. Þegar hann var 18 ára valdi Bogdan Kowalczyk hann í æfingahóp A-landsliðsins og hann var í nokkrum slíkum hópum án þess að ná að spila landsleik. „Mig vantaði hæðina,“ segir hann kíminn.

Hann spilaði með Fram 1992 til 1993, lék með Selfyssingum 1993 til 1998 og lauk ferlinum hjá uppeldisfélaginu 1998 til 2003. 

Þegar Hallgrímur var 16 ára byrjaði hann að þjálfa yngri flokka hjá ÍR og hefur haldið áfram á þeirri braut, er nú markmannsþjálfari hjá Fram og Fjölni. Hann var aðstoðarþjálfari meistaraflokks Fram fyrir nokkrum árum og þá var Viktor Gísli að byrja að láta finna fyrir sér í meistaraflokki. 

Hallgrímur leggur áherslu á að hæðin hafi skipt sköpum hjá Viktori Gísla. „Hann fæddist stór og var alltaf tveimur númerum of stór án þess að vera einhver sláni. Hann var snemma með góðar hreyfingar í markinu, sterka fætur og samsvaraði sér vel og við studdum hann einfaldlega í því sem hann vildi gera. Hann var mjög öflugur hafsent í fótboltanum, meðal annars bikarmeistari með 3. flokki Fram 2015. Hann valdi handboltann og við erum ótrúlega stolt af honum.“

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag, 26. janúar. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert