Vill skjávarpa í þingsal og fleiri útsendingarvinkla

Jakob Frímann Magnússon, þingmaður Flokks fólksins var fyrstur á mælendaskrá …
Jakob Frímann Magnússon, þingmaður Flokks fólksins var fyrstur á mælendaskrá á þingfundi í dag.

Jakob Frímann Magnússon, þingmaður Flokks fólksins, sagðist vilja bæta störf þingsins á þingfundi í dag og lagði meðal annars til að inn í þingsal yrði bætt við textavél, skjávarpa og fleiri útsendingarvinklum.

Hann sagði flesta þingmenn mæta upp í pontu með skrifaðar ræður sem yrði til þess að þingmenn horfi niður á blaðið í stað þess að horfa fram og í „augu þjóðarinnar“.

Kunnugt öllum þeim sem hafa verið í sjónvarpi og á ráðstefnum

Jakob telur þetta geta breytt og bætt ásýnd þingmanna í þingsal:

„Þetta þekkja allir sem hafa verið í útsendingum í sjónvarpi eða á ráðstefnum. Þetta er tiltölulega viðtekinn nútímalegur máti.“

Önnur tillaga Jakobs sneri að því að menn gætu lagt meiri áherslu á mál sitt með því að geta „gripið til stoðtækja á borð við skjá á vegg tengdan við tölvu með áhersluatriðum í máli og myndum. Þetta get ég fullyrt af eigin raun að geti gert ræður manna skýrari og skemmtilegri.“ 

Þriðja og síðasta tillaga Jakobs var að fjölga útsendingarvinklum í þingsal til þess að gera hana skemmtilegri fyrir þá sem á horfa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert